Innlent

Sjötíu stúdentar fara í inntökupróf á næstunni

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Runólfur Oddsson, ræðismaður Slóvakíu á Íslandi.
Runólfur Oddsson, ræðismaður Slóvakíu á Íslandi.
Sjötíu stúdentar sem vilja verða læknar hafa sótt um að þreyta inntökupróf í Jessenius School of Medicine í borginni Martin í Slóvakíu.

Skólinn er deild við Comenius-háskólann í höfuðborginni Bratislava. Inntökuprófin verða haldin í dag í Reykjavík og á fimmtudag á Akureyri. Prófin þreyta 47 manns. Í júlí verður svo boðið upp á annað inntökupróf í skólann og nú þegar eru 25 búnir að skrá sig.

Nemendur þreyta próf í efnafræði og líffræði og þurfa að ná lágmarkseinkunn í báðum greinum til komast inn í skólann.

Af þeim sem þreyta inntökuprófið í þessari viku má búast við að 50 haldi utan til náms í haust.

Tvö ár eru síðan fyrstu læknanemarnir hófu nám við læknaskólann í Martin, þá fóru átta nemendur út. Í fyrra hófu 44 læknanám við skólann. Á sama tíma hófu 48 stúdentar nám í læknisfræði við Háskóla Íslands.

Að sögn Runólfs Oddssonar, ræðismanns Slóvakíu á Íslandi, hefur brottfall verið mjög lítið í hópi þeirra sem hafa farið í læknisnám.

„Ætli það séu ekki þrír til fjórir sem hafa hætt námi af einhverjum orsökum,“ segir Runólfur. Hann segir að læknanemunum hafi líkað mjög vel og samheldni innan hópsins sé mikil. Skólinn sé mjög vel tækjum búinn og nemendur stundi námið í litlum hópum. Mörgum þyki það þægilegt.

„Umhverfið er mjög fallegt og stutt í margar náttúruperlur,“ segir Runólfur og bætir við að það kunni margir að meta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×