Innlent

Stefnir í miklar breytingar á bæjarstjórn Akureyrar

Sveinn Arnarsson skrifar
Akureyri er stærsta sveitarfélag landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Íbúar sveitarfélagsins voru í ársbyrjun 18.103 og hefur íbúum fjölgað um rúmlega 500 manns á kjörtímabilinu.

Sveitarstjórnarkosningarnar árið 2010 voru um margt sögulegar á Akureyri. L-listi fólksins vann þá sinn stærsta kosningasigur og fékk hreinan meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar. Fjórflokkurinn svokallaði fékk hver um sig einn mann kjörinn og A-listi Bæjarlistans einn mann einnig.

L-listinn tapar um helmingi fylgis síns frá kosningum 2010 samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins. Hann mælist nú með 22,1 prósents fylgi og fær þrjá menn kjörna í bæjarstjórn. Ljóst er að nýr meirihluti verður myndaður að loknum kosningum í vor.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur, með um 23 prósenta fylgi og þrjá menn.

Björt framtíð býður fram í fyrsta sinn til sveitarstjórnar á Akureyri og fær tvo menn kjörna samkvæmt könnuninni og 18,3 prósenta fylgi.

Samfylkingin mælist með 13,9 prósenta fylgi og einn mann í könnuninni en lítið þarf að breytast svo annar maður Samfylkingar komist í bæjarstjórn á kostnað þriðja manns L-lista.

Framsókn fær 11,8 prósenta fylgi og einn mann og VG nær einnig inn manni í bæjarstjórn, mælist með 8,3 prósenta fylgi.

Dögun nær ekki inn manni í kosningunum í vor samkvæmt könnuninni, mælist með um 2 prósenta fylgi.

NIðurstaða könnunar Fréttablaðsins
Verði niðurstaða könnunarinnar úrslit kosninganna í lok mánaðar munu aðeins tveir bæjarfulltrúar af ellefu setjast aftur í bæjarstjórn. Aðeins tveir flokkar geta myndað saman tveggja flokka meirihluta, Sjálfstæðisflokkur og L-listinn.

Gunnar Gíslason er oddviti Sjálfstæðisflokksins. Framboðið vill stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, standa vörð um fyrirtæki og stofnanir í bænum og stytta biðtíma eftir læknisþjónustu. Flokkurinn leggur mikla áherslu á samgöngumál, að tryggja veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri og tryggja raforkuflutninga til bæjarins.

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur á það áherslu að byggja áfram upp í Hlíðarfjalli og hækka frístundaávísun fyrir börn í bænum,“ segir Gunnar. Einnig vill Sjálfstæðisflokkurinn vinna að því að stytta sumarlokanir í leikskólum og bjóða foreldrum meiri sveigjanleika varðandi sumarfrí barna sinna.

Margrét Kristín Helgadóttir er oddviti Bjartrar framtíðar. „Björt framtíð vill skapa stemningu sem sýnir svart á hvítu að á Akureyri er best að búa. Við eigum magnaðan bæ og hæfileikaríkt fólk – við viljum sýna ást okkar á Akureyri í verki með því að huga að þessum tveimur máttarstólpum. Við viljum vera græn í gegn og skapa okkur sérstöðu sem bæjarfélag sem veit að það er aðeins ein jörð og starfar á þeim grunni,“ segir Margrét Kristín.

Einnig leggur Margrét Kristín áherslu að þjóna íbúum bæjarins. „Stóru kosningamálin hvað okkur varðar eru til að mynda að koma hugmyndafræði þjónandi forystu inn í stjórnkerfi bæjarins. Við viljum miðbæ fullan af lífi, hvetja frumkvöðla og dugnaðarforka til dáða, styðja fjölbreytileika í skólum og tómstundastarfi og almennt alla góða hluti sem minnka sóun á tíma, fé og orku.“

„Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur það markmið að bæta líf okkar allra í gegnum öfluga samfélagslega þjónustu með áherslu á umhverfið, jöfnuð, jafnrétti og velferð íbúanna. Við leggjum áherslu á að meta að verðleikum störf og huga að vellíðan opinberra starfsmanna. Með því að hækka laun undir meðallaunum leiðum við launaþróun í rétta átt.“ Þetta segir Sóley Björk Stefánsdóttir, oddviti VG.

Sóley vill einnig afnema mörk meiri- og minnihluta í nefndum bæjarins. „Við ætlum að standa vörð um og efla Heilsugæslustöðina á Akureyri og berjast hraustlega fyrir réttmætum framlögum frá ríkinu. Einnig viljum við bæta upplýsingagjöf til íbúa, auka þátttöku í ákvarðanatöku og afnema hefðbundna meiri- og minnihlutaskiptingu við skipan í nefndir.“

Húsnæði leikfélags Akureyrar
Logi Már Einarsson er oddviti Samfylkingarinnar. Hann leggur höfuðáherslu á að jafna stöðu bæjarbúa, með sérstaka áherslu á börn, unglinga og aldraða. „Við höfum gengið alltof nærri skólum og öldrunarþjónustu í sparnaði. Nauðsynlegt er að skila þangað auknum fjármunum til þess að þau geti sinnt betur hlutverki sínu,“ segir Logi. 

Einnig vill Samfylkingin setja á laggirnar umboðsmann fyrir börn. „Vinnuumhverfi starfsmanna þarf að laga til muna. Við viljum skipa hverju barni umboðsmann sem fylgist heildstætt með námi þess og þroska frá upphafi skólagöngu til 18 aldurs.“ 

Samgöngumál og skipulagsmál verða einnig ofarlega á baugi að mati Loga. Flokkurinn vill bæta strætósamgöngur og leggur áherslu á hagkvæmari uppbyggingu bæjarins með nýjum íbúðum. „Hagkvæm uppbygging bæjarins er ein forsenda þess að gera rekstur Akureyrarbæjar sjálfbæran,“ segir Logi Már.

Hlín Bolladóttir er oddviti Dögunar. Hún vill stórauka vægi íbúanna í ákvarðanatöku. „Framboðið vill stuðla að jákvæðri, upplýsandi og lýðræðislegri umræðu um málefni bæjarins og hagsmuni íbúanna. Sérstaklega verði kappkostað að veita bæjarbúum aðgang að ákvörðunum sem snerta þá sjálfa, sem og að auka upplýsingagjöf og aðgang að gögnum sem varða rekstur og ráðstöfun fjármuna.

Beinar atkvæðagreiðslur og ráðgefandi atkvæðagreiðslur verði innleiddar sem hluti af rafrænni stjórnsýslu og unnið að valddreifingu og auknu sjálfstæði og ábyrgð stjórnenda í einstökum stofnunum bæjarins,“ segir Hlín. Hún leggur áherslu á að skera niður kostnað í yfirbyggingu og nýta fjármuni frekar í starfsemi stofnana.

„Við leggjum mikla áherslu á að styrkja innviði samfélagsins og að þess verði gætt, með betri afkomu sveitarfélagsins, að fjármunum verði varið til þeirra málaflokka sem mest hafa þurft að spara á liðnum árum,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins.

Hann leggur áherslu á stöðu barna og ungmenna og vill stórauka hreyfingu þeirra. „Þá viljum við gera stórátak í heilsueflingu barna og unglinga, hækka frístundaávísanir og viljum einnig bjóða upp á frístundaávísanir fyrir eldri borgara.“

Hann telur húsnæðismál þurfa að vera eitt af stóru málunum í kosningunum. „Við viljum stuðla að uppbyggingu á öflugum leigumarkaði í samvinnu við lífeyrissjóði og húsnæðissamvinnufélög.“

Matthías Rögnvaldsson er nýr oddviti L-listans. L-listinn er eina staðbundna framboðið sem starfar ekki á landsvísu. „L-listinn er eina óháða framboðið og hefur verið í fararbroddi varðandi samvinnu allra í bæjarstjórn og skilað hvað bestum rekstri sveitarstjórna á Akureyri undanfarin kjörtímabil,“ segir hann.

Matthías vill leggja áherslu á atvinnumál og nýsköpun næstu fjögur árin. „Við viljum fara nýjar leiðir í atvinnumálum þar sem mikil áhersla verður lögð á nýsköpun. Þá viljum við efla íbúalýðræðið til muna og gefa bæjarbúum sterkari rödd inn í stjórnsýslu bæjarins,“ segir hann.

L-listinn er með hreinan meirihluta í bænum og hefur stýrt bæjarfélaginu eftir hrun, oft við erfiðar aðstæður. „Við leggjum mikla áherslu á að með bættri afkomu bæjarsjóðs gefist tækifæri til þess að efla þjónustu og bæta hag starfsfólks og bæjarbúa. Við viljum láta bæjarbúa um bæjarmálin,“ segir Matthías.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×