Innlent

Gagnrýni siðfræðinga ómakleg

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, er á meðal þeirra 36 sem standa að yfirlýsingunni.
Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, er á meðal þeirra 36 sem standa að yfirlýsingunni. Vísir/Vilhelm

Hópur vísindamanna hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna lífsýnasöfnunarinnar Útkall í þágu vísindanna á vegum Íslenskrar erfðagreiningar og Landsbjargar. Kemur yfirlýsingin í kjölfar yfirlýsingar níu fræði- og vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Akureyri sem gagnrýna framkvæmd söfnunarinnar.

„Síðastliðin sautján ár hafa vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) í samstarfi við vísindamenn á Landspítala, í læknadeild og innan fjölmargra annarra stofnana hérlendis og erlendis náð ótrúlegum árangri í að varpa ljósi á erfðafræði margra sjúkdóma. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þetta samstarf vísindamanna ÍE og annarra í íslensku vísindasamfélagi hefur gert það að verkum að Ísland leiðir nú heiminn á flestum sviðum mannerfðafræði,“ segir í yfirlýsingu vísindamannanna.

Blása vísindamennirnir á þá gagnrýni að skemmtikraftar séu fengnir til að auglýsa söfnunina.

„Hvatning annarra í samfélaginu, svo sem listamanna og stjórnmálamanna er einnig virðingarverð. Engin ástæða er til að tortryggja slíkan stuðning.“

Þá er gagnrýnt að átakinu sé blandað við góðgerðarstarfsemi.

„Gagnrýni siðfræðinga á hlut Landsbjargar í söfnun sýnanna er að okkar mati einnig ómakleg. Alvanalegt er í vísindarannsóknum að þátttaka sé þökkuð, en hún á þó ekki að skapa óeðlilegan þrýsting á þá sem annars myndu ekki vilja gefa lífsýni,“ segir í yfirlýsingunni þar sem Íslendingar eru hvattir til að taka þátt. „Án hins almenna borgara verða þessar rannsóknir ekki gerðar.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.