Lífið

„Það vantaði íslenskt karókí og með Eurovision-lögunum,"

Baldvin Þormóðsson skrifar
Þórir hefur útsett tugi laga fyrir Eurovision.
Þórir hefur útsett tugi laga fyrir Eurovision. mynd/einkasafn
Ég hef unnið að hugmyndinni í eitt ár en hún kviknaði fyrir mörgum árum," segir Þórir Úlfarsson tónlistarmaður en hann vinnur að því í samvinnu við Símann að setja upp Eurovision-karókí í Sjónvarpi Símans.

„Ég hafði samband við Símann með það að markmiði að koma lögunum inn í Sjónvarp Símans. Það er frábær lausn þar sem bæði er hægt að nálgast lögin í sjónvarpinu og appinu," segir Eurobands-meðlimurinn en hann hafði velt því fyrir sér að gefa lögin út á DVD-disk en óttaðist að þeim yrði fljótt lekið á netið.

„Það vantaði íslenskt karókí og með Eurovision-lögunum," segir Þórir. Sá sem spreytir sig á íslensku Eurovision-lögunum heyrir bakraddirnar og getur sungið lagið eftir textanum eins og vant er í karókí. Þórir spilaði öll lögin fyrir karókíútgáfuna og á öll hljóðfærin.

„Það var ekkert mál, þetta er handavinna." segir tónlistarmaðurinn. „Sló fyrst trommutaktinn og spilaði á bassa og raðaði inn. Að mestu eru lögin þó unnin í tölvu."

Aðspurður hvaða lag Þórir haldi að verði oftast sungið segir hann að það verði líklegast Nína. „Það er einfaldlega vinsælast íslenskra Eurovision-laga."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×