Lífið

Heilluðu Google upp úr skónum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hér eru piltarnir á bak við Blendin í höfuðstöðvum Google. Þeir náðu að gera starfsmenn Google spennta fyrir Blendin-appinu.
Hér eru piltarnir á bak við Blendin í höfuðstöðvum Google. Þeir náðu að gera starfsmenn Google spennta fyrir Blendin-appinu. mynd/einkasafn
„Fundurinn gekk ótrúlega vel og fólk var mjög spennt. Þetta endaði með því að við fórum í hádegismat með konu einni og aðstoðarmanni hennar og út frá því kynnti hún okkur fyrir manneskju innan Google. Sú manneskja var í sama teymi og hannaði Google Maps,“ segir Davíð Örn Símonarson, framkvæmdastjóri Blendin. Ásamt Davíð Erni standa þeir Kristján Ingi Mikaelsson, Ásgeir Vísir og Daníel Björn Sigurbjörnsson á bak við Blendin.

Þeir félagar fluttu fyrir skömmu til San Francisco til að taka hugmyndina um Blendin-appið á næsta stig og kynntu appið á fjárfestingarráðstefnunni Seed Forum sem haldin var í San Francisco. Þeir voru eitt af fjórum fyrirtækjum sem fékk að kynna hugmyndir sínar og starfsemi.

„Það er frábært að fá tækifæri til þess að kynna hugmyndina á svona fundi en það er líka rándýrt. Það kostar um 2.500 evrur að halda sjö mínútna kynningu þarna. Við fengum hins vegar að gera þetta á góðum kjörum því við höfðum áður kynnt fyrirtækið á Seed Forum í London.“ Þeir fóru í höfuðstöðvar Google eftir fundinn og hittu þar konu sem var í teymi sem hannaði meðal annars Google Maps. „Þetta er alveg ótrúlegur vinnustaður,“ bætir Davíð Örn við.

Hugmyndin að Blendin kviknaði í samkvæmi í Danmörku sumarið 2012. „Þá kom Egill Ásbjarnarson, meðstofnandi Blendin, upp að mér með vandamál. Hann var orðinn þreyttur á því að þurfa að hringja í alla vini sína til þess að fá upplýsingar um hvort sá eða sú væri að fara að skemmta sér. Frá og með þessu kvöldi var ákveðið að slá á þetta og koma með lausn á þessu vandamáli,“ segir Davíð Örn spurður út í upphafið.

App þeirra félaga er allt útspekúlerað og hafa þeir unnið að smíði appsins í rúmt ár. „Eftir að við komum hingað út þá höfum hugsað Blendin upp á nýtt og einfaldað það talsvert. Við tókum marga fídusa út því þetta er svo nýtt og ákváðum að byrja frekar einfalt og bæta svo við. Reynslumikið fólk í geiranum ráðlagði okkur að byrja með einfalda útgáfu af appinu,“ segir Davíð Örn.

Þeir stefna á að stækka appið smátt og smátt. „Við getum vonandi eftir eitt til tvö ár selt fyrirtækið til stærra fyrirtækis eins og Google eða Facebook en ætlum þó að byrja á að byggja upp aðdáendahóp.“

Stefnt er að því að gefa út einfalda útgáfu af Blendin í lok mars eða byrjun apríl og mun appið aldrei kosta neitt.

Nánar um appið á Blendin.is og á fésabókarsíðu þeirra félaga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×