„Ég vil meina að ég hafi mjög snemma byrjað að leggja línurnar fyrir þjóðina,“ segir útvarpsmaðurinn Sigurður Hlöðversson, betur þekktur sem Siggi Hlö. Hann birti mynd á Facebook-síðu sinni sem tekin var árið 1981, þar sem hann sést mynda sjálfan sig í spegli með Kodak Ektralite 500-vél, þrettán ára gamall.
Siggi heldur því fram að hann sé upphafsmaður sjálfsmynda á Íslandi, svokallaðra „selfie“-mynda, en mikið „selfie“-æði hefur gripið um sig upp á síðkastið um allan heim.
„Ég ætla að leyfa mér að standa við þetta þangað til einhver annar hrekur þetta. Nú tala ég bara um á Íslandi, ég geri mér grein fyrir því að ég er ekki fyrsti maðurinn í heiminum til að taka „selfie“,“ segir Siggi. Hann segist lítið hafa verið í sjálfsmyndunum í seinni tíð.
„Maður tekur eina og eina og gerir eins og hinir. Annars er ég meira í því að leggja línurnar og láta aðra um að halda trendinu lifandi.“
Tók fyrstu "selfie“-mynd Íslands
Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
