Innlent

Sigmundur Davíð afhenti síðustu vísbendinguna

Bjarki Ármannsson skrifar
Sigmundur Davíð færir nemendunum vísbendinguna.
Sigmundur Davíð færir nemendunum vísbendinguna. Mynd/Aðsend
Nemendum á unglingastigi Borgarhólsskóla í Húsavík brá heldur betur í brún þegar sjálfur forsætisráðherra landsins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, heimsótti þau í svokölluðum Survivor-leik í dag. Fyrst var sagt frá þessu á fréttasíðunni 640.is.

Í leiknum keppa nemendur í þrautum og fyrir hverja þraut berst hverjum hóp vísbending um þá næstu. Svavar Pálsson, sýslumaður á Húsavík, og Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, eru meðal þeirra sem tóku þátt í að afhenda vísbendingarnar en þá síðustu afhenti forsætisráðherra.

„Hann átti hér leið hjá og mér fannst upplagt að láta hann veita síðustu vísbendinguna,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason, kennari við skólann og varaþingmaður Sigmundar. „Hann tók mjög vel í þetta og krökkunum fannst þetta gaman.“

Að sögn Hjálmars voru nemendur meira og minna með það á hreinu hver væri þar á ferðinni.

„Einn spurði: Er þetta ekki maðurinn úr Áramótaskaupinu?“ segir Hjálmar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×