Innlent

Vilja heiðarlegan og brosmildan starfsmann í Málið strax

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. Vísir
Málið, veitingasala Háskólans í Reykjavík, auglýsir í Fréttablaðinu í dag eftir starfsmanni í afgreiðslu. Auglýsingin birtist aðeins fjórum dögum eftir mótmæli nemenda skólans vegna þjónustu og hás matarverðs.

Boðað var til mótmælanna síðastliðinn fimmtudag þar sem nemendur voru hvattir til að sniðganga Málið. Nemendur kröfðust útskýringa á hækkunum á vörum í veitingasölunni en verðkönnun Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík sýndi allt að 20 prósenta hækkun.

Huginn Ragnarsson, upplýsingafulltrúi stúdentafélagsins, sagði í samtali við Vísi á föstudag að fyrirhugaður væri fundur með forsvarsmenn Málsins vegna verðlagningar og þjónustu.

Sjá einnig: Mótmæltu með nesti

„Við sjáum fram á að það verði vonandi eitthvað gott sem komi út úr því,“ sagði Huginn. Ekki náðist í Huginn við vinnslu þessarar fréttir en ljóst er að Málið ætlar að gera breytingar í starfsliði sínu ef marka má auglýsinguna í dag.

Þar kemur fram að starfið feli í sér afgreiðslu á kassa, áfyllingar, pantanir og annað sem til falli.

„Viðkomandi þarf að vera 20 ára eða eldri, heiðarlegur, brosmildur og glaðlegur og geta unnið undir álagi,“ segir í auglýsingunni. Um 100 prósent dagvinnu sé að ræða á tvískiptum vöktum og viðkomandi þurfi að geta byrjað strax.

Uppfært klukkan 14:00

Huginn Ragnarsson, upplýsingafulltrúi Stúdentafélagsins í Háskólanum í Reykjavík, segir í samtali við Vísi að fulltrúar stúdentafélagsins hafi fundað með fulltrúa Málsins, Guðríði Maríu Jóhannesdóttur framkvæmdastjóra, á sunnudaginn. Þar hafi verið rætt hvað hægt væri að gera til að lækka verðið og um leið bæta þjónustu og gæði. Fundurinn hafi verið fínn en svo verði að koma í ljós hvað úr verði.

„Þau ætluðu að fara í einhverjar mælanlegar aðgerðir fyrir vikulok,“ segir Huginn. Þau hafi ákveðið að gefa Málinu tíma til að skoða sín mál. Þeirra helstu baráttumál sé að lækka verðið.

„Það er aldrei að vita upp á hverju nemendur taka ef þessu verður ekki breytt. Ég get auðvitað ekki talað fyrir hönd allra en það er ljóst að fólk fylgist vel með núna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×