Tríóið Aftanblik er skipað Gerði Bolladóttur sópran, Victoriu Tarevskaia sellóleikara og Katalin Lorincz píanóleikara. Það kemur fram í Háteigskirkju klukkan 12 á morgun, föstudag, og flytur úrval síðrómantískra sönglaga sem urðu til á mótum vestrænnar klassískrar tónlistar og innlendrar þjóðlagahefðar á Íslandi, í Ungverjalandi og Rússlandi.
Þarna munu hljóma íslensk sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns, Árna Thorsteinsson, Björgvin Guðmundsson og fleiri í bland við aríur úr óperettum eftir Franz Lehár og verk eftir rússnesku tónskáldin Rimski Korskakov og Dmitri Kabalevski. Meðal annars verður ungverska lagið Til eru fræ sungið á ungversku og svo auðvitað líka á íslensku við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.
Tónleikarnir heyra undir röðina Á ljúfum nótum Lilju Eggertsdóttur píanóleikara.
Til eru fræ sungið á ungversku og íslensku
