Innlent

Fékk bílinn sinn aftur: Samdi við Krók en heldur málaferlum áfram

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Gísli Tryggvason sættir sig ekki við það að Bílastæðasjóður geti farið sínu fram án þess að svo mikið sem til andmælaréttar komi.
Gísli Tryggvason sættir sig ekki við það að Bílastæðasjóður geti farið sínu fram án þess að svo mikið sem til andmælaréttar komi.
Gísli Tryggvason hefur fengið bílinn sinn aftur, eftir að bílastæðasjóður lét nema bílinn á brott í skjóli nætur í maí. Gísli neitar að borga stöðumælasekt, sem honum þykir ekki réttmætog vill að sýslumaður úrskurði um réttmæti sektarinnar. Gísli var búinn að vera bíllaus í um sex vikur. Hann segir málið vera „prinsipp-mál.“

Fékk helmingsafslátt af vörslugjaldi

Starfsmenn Króks ehf – í umboði Bílastæðasjóðs - tóku bílinn fyrir utan heimili Gísla í síðasta mánuði og var bíllinn á geymslusvæði fyrirtækisins þar til í dag. Að sögn Gísla tókust samningar um helmingsafslátt af vörslugjaldi, gegn því að blanda Króki ekki inn í málaferli gegn Bílastæðasjóði. Gísli gerði einnig upp við lögmann Bílastæðasjóðs. „Ég greiddi lögmannskostnað Bílastæðasjóðs, með fyrirvara. Ef mér tekst að koma málinu fyrir dómara fer ég fram á endurgreiðslu alls kostnaðar,“ útskýrir hann.

Lagði í stæði fyrir skólabíl utan skólatíma

Vísir fjallaði um málið í máimánuði, en Gísli var sektaður fyrir að leggja bíl sínum í stæði sem var merkt sem stæði fyrir skólabíl. Gísli lagði í stæðið utan skólatíma og sagði hann frá því í samtali við Vísi að venja væri að fólk leggði í stæðið þegar skólahald væri ekki í gangi. 

Gísli gæti borgað sektina og svo farið í svokallað endurgreiðslumál. En honum þykir það óviðunnandi. „Það er óviðunnandi réttarúrræði fyrir almenna borgara að þurfa að borga og síðan fara í einkamál. Maður á að geta látið reyna að réttmæti og lögmæti sektarinnar í ferlinu sjálfu.“

Í síðasta mánuði sagði Gísli: „Staðan er í raun og veru sú að stöðumælavörður getur að óbreyttu komið bílnum í nauðungarsölu ef sýslumaður og dómari geta ekki gripið inní. Það er óásættanlegt og ekkert réttaröryggi í því, að fá enga endurskoðunarmöguleika.“

Prinsippmál

„Þó að ég sé hættur að standa í svona málum fyrir sjálfan mig, þá finnst mér núna tilefni til að staldra aðeins við og láta á þetta mál reyna, fyrir fjöldann,“ segir Gísli. 

Þó að málið snúist um „prinsipp“ í hans augum, þá ákvað hann að semja við Krók og Bílastæðasjóð í dag. „Ég gat ekki verið bíllaus lengur, ég varð bara að fá bílinn,“ útskýrir hann. 

En hvernig hefuru ferðast í bílleysinu?

„Ég hef hjólað, fengið far, tekið strætó og stundum fengið bíl kærustunnar lánaðan.“

Gísli ætlar að krefja sýslumann formlega að taka málið fyrir og tiltekur þrjár megin röksemdir: „Í fyrsta lagi að ég lagði í stæðið utan skólatíma. Í öðru lagi tel ég að ekki hafi verið rétt að fara beint í vörslusviptingu en ekki fjárnám. Og í þriðja lagi tel ég þetta tiltekna skilti ekki samræmast settum reglum um slík skilti.“

Ef sýslumaður neitar að taka málið fyrir neyðist Gísli til að höfða einkamál og segist hann ætla að gera það ef til þess kemur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×