Lífið

Universal mun framleiða víkingamynd Baltasars

Bjarki Ármannsson skrifar
Universal hefur tryggt sér réttinn á hugarfóstri Baltasars.
Universal hefur tryggt sér réttinn á hugarfóstri Baltasars. Vísir/Anton
Bandaríska kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Universal hefur tryggt sér réttinn á fyrirhugaðri stórmynd Baltasars Kormáks sem á að bera heitið Vikingr og er byggð á Íslendingasögunum.

Fjölmiðlar vestanhafs, meðal annars Hollywood Reporter, greina frá þessu í dag. Þar segir að framleiðslufyritæki Baltasars, RVK Studios, muni framleiða myndina ásamt Universal og að hún eigi að segja frá „hetjum, ævintýrum og raunum norrænna landnámsmanna.“

Baltasar hefur lengi ætlað að hefja tökur á slíkri mynd en hann sagðist í viðtali við tímaritið Variety fyrr á árinu hafa byrjað að skrifa handritið upp úr síðustu aldamótum. Myndin verður tekin upp á Íslandi, líklega á ensku, en árið 2009 var nokkurs konar víkingaþorp reist undir Vestrahorni í Hornafirði sem leikmynd.

Kostnaður við gerð myndarinnar mun vera á bilinu sextíu til hundrað milljónir Bandaríkjadala eða um sjö til sextán milljarðar króna. Baltasar leikstýrði áður hasarmyndunum Contraband og 2 Guns fyrir Universal.


Tengdar fréttir

Næsta mynd Baltasars verður Vikings

Næsta verkefni Baltasars Kormáks, eftir myndina Everest, verður kvikmyndin Vikings, en hann hefur lengi unnið að gerð þeirrar myndar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×