Innlent

Skera upp herör gegn barnavændi

Birta Björnsdóttir skrifar
Undirbúningur fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu er nú í fullum gangi, enda hefst mótið þann 12.júní næstkomandi. Meðal fjölmargra verkefna sem yfirvöld í Brasilíu standa frammi fyrir er að reyna að stemma stigu við aukningu barnavændis þar í landi.

Áætlað er að misnotkun á börnum með þessum hætti hafi aukist um 30- 40% á meðan á síðustu heimsmeistaramótum stóð, í Þýskalandi og Suður- Afríku.

Í Brasilíu hefur barnavændi verið vandamál lengi, svo mikið vandamál að landið fylgir nú fast á hæla Tælands sem áfangastaður fyrir barnaníðinga, slíkt er framboðið.

Talið er að um hálf milljón barna stundi vændi í Brasilíu, allt niður í 11 ára gömul börn.

Yfirvöld hafa ráðist í herferð til að minna þá 600 þúsund ferðamenn, sem væntanlegir eru til landsins, á að vændiskaup af einstaklingum undir 18 ára aldri er ólöglegt þar í landi.

Þá hafa ráðamenn reynt að lagfæra ímynd sína sem kynlífsparadís undanfarin misseri, og fóru þess meðal annars á leit að íþróttavöruframleiðandinn Adidas tæki úr sölu stuttermaboli sem hannaðir voru fyrir keppnina, þar sem þeir þóttu ýja að því að fáklæddar konur væru hluti af aðdráttarafli heimsmeistaramótsins.

Forseti Brasilíu, Dilma Rousseff, sagði alla ferðamenn velkomna til Brasilíu vegna heimsmeistaramótsins, þeir yrðu hinsvegar allir að gera sér grein fyrir því að vændiskaup á börnum yrðu ekki liðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×