Innlent

Hellisheiði og Þrengsli lokuð

Samúel Karl Ólason skrifar
Lokað hefur verið fyrir umferð um Hellisheiði og Þrengsli.
Lokað hefur verið fyrir umferð um Hellisheiði og Þrengsli. Vísir/Jóhann
Lokað hefur verið fyrir umferð um Hellisheiði og Þrengsli. Búið er að kalla út björgunarsveitir frá Hveragerði og Þorlákshöfn og eru þær nú að ferja fólk úr bílum sem sitja fastir á Hellisheiði.

Sandskeiði hefur einnig verið lokað.

Flughált er á Suðurstandavegi og mjög hvasst og er fólki ráðið frá því að aka þann veg nema brýna nauðsyn beri til og á vel búnum bifreiðum. Þá lenti strætisvagn í vanda á Þorlákshafnarvegi vegna færðar á Þorlákshafnarvegi.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi eru nú í heildina 30 björgunarsveitarmenn að störfum frá fimm björgunarsveitum á níu björgunartækjum. Búið er að sækja 17 einstaklinga úr sjö bifreiðum sem voru skildar eftir.

Hálka og snjóþekja er á Suður- og Suðvesturlandi. Þæfingur og stórhríð er í Svínahrauni. Óveður  er á Kjalarnesi og Grindavíkurvegi. Þungfært og skafrenningur er á Mosfellsheiði.

Hálka, snjóþekja og skafrenningur er á Vesturlandi. Óveður er undir Hafnarfjalli. Þungfært og stórhríð er á Fróðarheiði, stórhríð og snjóþekja er við Búlandshöfða.

Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja og víða éljagangur. Ófært er á Kleifarheiði, snjóþekja og stórhríð er á Hálfdán og á Mikladal. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar og þungfært er úr Bjarnarfirði norður í Reykjarfjörð.

Á Norðurlandi er hálka. Þæfingur er á Dettifossvegi.

Hálkublettir, hálka eða snjóþekja er á flestum vegum bæði á Austur- og Suðausturlandi. Þæfingsfærð er á Öxi en Breiðdalsheiði er ófær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×