Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 8 mánaða skilorðsbundið fyrir að hafa ráðist á annan mann á skemmtistaðnum Paddy‘s í Reykjanesbæ í júní 2012.
Manninum var gefið að sök að hafa kastað glerglasi í andlit þess sem hann réðst á og kýlt hann ítrekað í andlitið. Sauma þurfti 5 spor í andlit fórnarlambsins þar sem hann hlaut tvo djúpa skurði auk annarra sára á enni og kinnum.
Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi og var þar með sannað að hann hafði gerst sekur um refsiverða háttsemi. Segir í dómnum að árásin hafi verið mjög háskaleg en til refsilækkunar kom meðal annars ungur aldur mannsins sem var 18 ára þegar árásin átti sér stað.
Hæfileg refsing var því metin 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi auk þess sem maðurinn var dæmdur til þess að greiða allan sakarkostnað.

