Innlent

Íslensk kjötsúpa slær í gegn í eina kjötsúpubíl landsins

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Kjötsúpubíll við Hallgrímskirkju nýtur mikilla vinsælda, ekki síst hjá erlendum ferðamönnum, sem vilja smakka öðruvísi mat. Eigandinn notar meðal annars hvítlauk og engifer í súpuna.

Kjötsúpubílinn er staðsettur á planinu fyrir neðan Hallgrímskirkju en Jónína H. Gunnarsdóttir, eigandi bílsins keypti hann frá Þýskalandi. Nú er búið að vera opið í mánuð.

„Mér fannst vanta inn í flóruna eitthvað íslenskt fyrir túristana, einhvern skyndibita, ekki bara hamborgara og pylsur, þannig að ég hugsaði þetta í töluverðan tíma og lét svo slag standa og fór og keypti bílinn“, segir Jónína.

En hvernig hafa viðtökurnar verið?

„Þær eru mjög góðar, bæði hjá íslendingum og útlendingum, ég er með gott hráefni, grænmeti beint frá bónda og svo er ég með lærið, ég nota ekki súpukjötið, það er svo feitt og ég er með þetta á góðu verði.“

En hvað er svona sérstakt við kjötsúpuna hennar?

„Hún er aðeins sterkari heldur en þessi íslenska hefðbundna, hún inniheldur meira grænmeti, sem við ættum að borða eins og hvítlauk og engifer og rauða piparinn eins og þjóðir asíu borða mikið af og elska,“ segir Jónína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×