Innlent

Ekki hægt að gefa blóð nema í neyð

Bjarki Ármannsson skrifar
Einungis verður hægt að sinna neyðargjöfum á blóði ef af verkfalli verður.
Einungis verður hægt að sinna neyðargjöfum á blóði ef af verkfalli verður. Vísir/Pjetur
Boðað verkfall náttúrufræðinga á Landspítalanum, um sjötíu starfsmanna, hefst á morgun ef samningar nást ekki í dag. Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, segir að nú sé verið að fara yfir áætlun til að tryggja sem best öryggi sjúklinga.

„Við höfum miklar áhyggjur af þessu máli,“ segir Ólafur. „Þetta verkfall hefur mikil áhrif á starfsemi spítalans.“

Flestir náttúrufræðingar spítalans starfa í Blóðbankanum og því verður einungis hægt að sinna neyðargjöfum á blóði á meðan á verkfallinu stendur.

„En jafnframt verða heilbrigðisstofnanir úti á landi fyrir áhrifum vegna þess að Blóðbankinn þjónar þeim,“ segir Ólafur.

Félag íslenskra náttúrufræðinga fundaði með ríkinu í um tvo tíma í gær. Páll Halldórsson, formaður félagsins, segir að samningar hafi ekki tekist og að enn sé „alveg óljóst“ hvort af verkfalli verði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×