Hún segir módelstörfin og tannlæknanámið fara ágætlega saman en þó hún láti námið ganga fyrir þá situr hún fyrir þegar hún getur. „Það er líka svo skemmtilegt, ég hef alltaf haft ánægju af því að vinna á setti. Það er einnig fjölbreytt og maður kynnist góðu og skemmtilegu fólki í þessum bransa“ segir Anna, en margir muna eftir henni sem stelpunni sem lék í myndbandinu hjá bresku sveitinni Hurts.
Hún og aðalsöngvari sveitarinnar, Theo, halda enn góðu sambandi. „Já, við dóum næstum því við tökur á fyrra myndbandinu þegar stór alda kom yfir okkur, hnéskelin mín hoppaði úr stað og brotnaði og eina ástæðan fyrir að ég sogaðist ekki út með straumnum var því hann ríghélt í höndina á mér. Þetta var sem betur fer síðasta skotið og ég man, í hálfgerðri móðu, eftir þegar verið var að bera mig í sjúkrabílinn að hafa verið mjög harðorð við leikstjórann um að það væri eins gott fyrir hann að nota þetta skot því annars yrði ég brjáluð,“ segir Anna og hlær.
„Upp frá þessu urðum við góðir vinir og hann kemur oft til Íslands.“ Það kom Önnu skemmtilega á óvart um daginn að finna Facebook-síðu tileinkaða henni, stofnaða af hópi búlgarskra stúlkna. „Það eru einhver hundrað manns búin að líka við síðuna, mér finnst þetta mjög fyndið og við vinirnir höfum flissað mikið yfir þessu.“