Innlent

Tvöfalt fleiri hjólreiðamenn slasast illa

Ingvar Haraldsson skrifar
Alvarlegum slysum á hjólreiðamönnum á Höfuðborgarsvæðinu fer fjölgandi.
Alvarlegum slysum á hjólreiðamönnum á Höfuðborgarsvæðinu fer fjölgandi. Vísir/Heiða
Alvarleg slys á hjólreiðamönnum voru tvöfalt fleiri á höfuðborgarsvæðinu árið 2013 en árið 2012 samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu. Alvarlegum slysum fjölgaði úr fimmtán í þrjátíu og eitt.

Magnús Jensson, fyrverandi formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, segir ástæðu til að bæta öryggi hjólreiðafólks í umferðinni. „Það er búið að skapa öfgabílamenningu. Bílar eiga alltaf að hafa forgang umfram aðra vegfarendur.“

Magnús bætir við: „Umferðarmenningin einblínir um of á ökumenn. Það hefur gleymst að taka tillit til annara samgönguþátta en bílsins.“

Magnús bendir einnig á að víða séu biðskyldumerkingar í Reykjavík staðsettar of nálægt gatnamótum. „Merkingarnar eru staðsettar þannig að bílar stöðva þegar þeir eru komnir í veg fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í stað þess að stæðnæmast fyrir framan gangbrautir.“

Vegna þessa gripu félagsmenn í Samtökunum um bíllausan lífsstíl til þess ráðs að endurmerkja nokkur gatnamót í Reykjavík þannig að bílar staðnæmdust fyrir framan gangbrautir.

Árni Davíðsson, stjórnarmaður í Landssamtökum hjólreiðamanna segir að hluta til megi útskýra fjölgun slysa með fjölgun hjólreiðamanna. Einnig gæti bætt skráning á hjólreiðaslysum hjá lögreglunni átt þátt í að skýra málið.

Sigrún Helga Lund, annar fyrrverandi formaður í Samtökunum um bíllausan lífsstíl, segir algengt að slys verði vegna þess að ökumenn gleymi að líta til hliðar þegar þeir beygi til hægri og aki þá á hjólreiðamenn sem séu séu að fara í sömu átt yst til hægri á götunni. Það taki hins vegar tíma fyrir ökumenn að venjast fleiri hjólreiðamönnum í umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×