Innlent

Rifta samningi og auglýsa á nýjan leik

Sveinn Arnarsson skrifar
Arctic Oddi gerði samkomulag við Byggðastofnun. Fyrirtækið sendi stofnuninni bréf fyrir skömmu þar sem það sagðist ætla að hætta bolfiskvinnslu á Flateyri. Þar með riftir Byggðastofnun samningnum.
Arctic Oddi gerði samkomulag við Byggðastofnun. Fyrirtækið sendi stofnuninni bréf fyrir skömmu þar sem það sagðist ætla að hætta bolfiskvinnslu á Flateyri. Þar með riftir Byggðastofnun samningnum.
Byggðastofnun hefur rift samningi vegna aflamarks á Flateyri og auglýst að nýju eftir samstarfsaðilum vegna allt að 300 þorskígildistonna.

Fyrirtækin Arctic Oddi, Valþjófur og Vísir komust á fimmtudag að samkomulagi sem á að styrkja stoðir atvinnulífs á Flateyri og Þingeyri. Samkomulagið felst í því að Arctic Oddi muni flytja starfsemi sína frá Flateyri í húsnæði sem var í eigu Vísis á Þingeyri. Byggðastofnun hefur látið Arctic Odda fá byggðakvóta að kostnaðarlausu til vinnslu á Flateyri og þeim er ekki heimilt að flytja hann í annað byggðalag.

Samkvæmt tilkynningu sem fyrirtækin þrjú sendu frá sér er samkomulagið gert með fyrirvara um samþykki Byggðastofnunar sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir um miðjan desember. Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, veit ekki hvers lags samkomulag það eigi að vera.

Aflamarkið var afhent Arctic Odda með því skilyrði að það yrði unnið á Flateyri. Um það gilda reglugerðir. Fyrirtækjum er ekki heimilt að framselja aflamarkið eða flytja það í annað sjávarpláss.

Byggðastofnun ákvað þar af leiðandi að rifta samningi sínum við Arctic Odda því aflamarkið átti að nota til að styðja við byggðina á Flateyri.

Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, telur málið í raun einfalt. „Byggðastofnun gerir samning við Arctic Odda um að viðhalda fiskvinnslu á Flateyri. Samningurinn var sá að Byggðastofnun afhendi þeim 300 tonna byggðakvóta, án endurgjalds, með því skilyrði að fyrirtækið myndi koma með eitthvað á móti. Fyrst fyrirtækið hætti bolfiskvinnslu með tilkynningu til okkar þá er ekkert hægt annað að gera en að rifta samningnum og auglýsa hann upp á nýtt.“

Þóroddur Bjarnason, formaður stjórnar Byggðastofnunar, segir Byggðastofnun hafa náð miklum árangri í að tryggja heilsárstörf í fiskvinnslu. „Á sumum stöðum hefur þetta gengið afar vel og 60-80 heilsársstörf verið tryggð, á öðrum stöðum hafa engir samstarfsaðilar fundist og heimildir Byggðastofnunar þá verið nýttar annars staðar. Það kemur hins vegar ekki til álita að einkaaðilar geti byggt útgerð sína á ókeypis aflaheimildum Byggðastofnunar. Stofnunin ber ábyrgð gagnvart þjóðinni og íbúum allra sjávarþorpa að jafnræðis sé gætt og þetta vandasama verkefni sé leyst af hendi með opnum og skilvirkum hætti,“ segir Þóroddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×