Innlent

Barnasprengja á Reykhólum eftir að oddvitinn lofaði peysu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Óvenju mörg börn hafa fæðst í Reykhólasveit að undanförnu og er hlutfall barna orðið það hæsta á Vestfjörðum. Fjörið virðist hafa byrjað þegar oddvitinn lofaði að prjóna peysu á hvert barn sem fæddist í sveitinni.

Foreldrar með börn voru áberandi í þorpinu á Reykhólum þegar Stöðvar 2-menn voru í heimsókn. Við sáum pabba með barnavagn, við sáum mömmu með barnavagn, á leikskólalóðinni var fullt af börnum að ærslast og það var einnig líflegt í frímínútum við grunnskólann. Orðið barnasprengja er notað um fjörið þar um þessar mundir.

Sumir segja að allt hafi farið á fullt með áheiti oddvitans, Andreu Björnsdóttur, sem hamast nú við að prjóna peysur. Á síðasta ári urðu börnin átta. Fleiri eru á leiðinni.

Hlutfall barna á Reykhólum er óvenju hátt, 25% íbúa eru 10 ára og yngri.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Sveitarstjórinn, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, segir tölurnar ánægjulegar. Um 25 prósent íbúa Reykhóla séu 10 ára og yngri. 

Við tókum líka eftir því að talsvert er um að ungt fólk hafi flutt á staðinn að undanförnu. Í þættinum Um land allt á Stöð 2 í kvöld klukkan 19.20 er fjallað nánar um samfélagið í Reykhólasveit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×