Innlent

Læknar vilja umtalsverðar launahækkanir

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Læknafélag Íslands og Skurðlæknafélag Íslands hafa vísað kjaradeilum sínum til ríkissáttasemjara. Þeir fara fram á verulega hækkun á launum og útiloka ekki vinnustöðvanir ef áfram gengur illa að semja. 

Læknar hafa nú bæst í hóp þeirra  fjölmörgu starfstétta deilt hafa hjá ríkissáttasemjara síðustu vikur og mánuði, en viðræður, vinnustöðvanir og verkföll hafi sannarlega sett sitt mark á samfélagið upp á síðkastið.

Aðilar að Læknafélagi Íslands eru allir sjúkrahús- og heilsugæslulæknar, ef frá eru taldir þeir sem eru sjálfstætt starfandi. Kjarasamningar lækna hafa verið lausir frá því í febrúar og enn ber mikið á milli krafna þeirra og tilboðs samninganefndar ríkisins.

Undanfarið hefur mikið verið rætt um læknaskort á Íslandi. Sífellt verður algengara að læknar snúi ekki heim úr sérnámi erlendis og meðalaldur lækna hefur aldrei verið hærri. Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segir nauðsynlegt að gripið verði í taumana sem fyrst. 

„Tíminn vinnur á móti okkur. Ef við bíðum mörg ár í viðbót þá missum við hreinlega heila eða heilar kynslóðir lækna úr landi og það verður mjög slæmt fyrir heilbrigðiskerfið,“ segir hann.

Á aðalfundi Læknafélags Íslands í október síðastliðnum var ályktun um stofnun verkfallssjóðs lögð fram og samþykkt, en slíkur sjóður hefur ekki verið til áður. Þorbjörn útilokar ekki vinnustðvanir í takt við það sem á undan hefur gengið hjá öðrum stéttum, en tekur þó fram að verkfallsréttur lækna sé takmarkaðri en hjá öðrum stéttum.

„Ég útiloka auðvitað ekki neitt en við vonumst að sjálfsögðu til að þetta gangi vel í sumar og með haustinu,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×