Innlent

Fjörutíu innbrot í sumarbústaði í Árnessýslu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Um síðustu helgi var t.d. farið inn í sex bústaði. Fæst innbrotin upplýsast.
Um síðustu helgi var t.d. farið inn í sex bústaði. Fæst innbrotin upplýsast. myndir/lögreglan á Selfossi
Það sem af er árinu 2014 hefur lögreglunni á Selfossi borist tilkynningar um fjörutíu innbrot í sumarbústaði í Árnessýslu, langflest í Grímsnesi og í Þingvallasveit. Um síðustu helgi var t.d. farið inn í sex bústaði. Fæst innbrotin upplýsast.

„Flatskjáir, hljómtæki og önnur rafmagnstæki er það sem helst er tekið. Fáttítt að áfengi sé stolið, sennilega vegna þess að það þykir ekki vera góð söluvara sem manni finnst órökrétt. Ekki er hægt að fullyrða um hvað verður um þýfið. Við vitum þó að í mörgum tilvikum eru menn reknir af stað af fíkniefnasölum til að brjótast inn og komast yfir verðmæti til að standa skil á fíkniefnaskuldum,“ segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Selfossi.

mynd/lögreglan á selfossi
Hann segir að síðustu ár hafa innbrotum fækkað mikið í sumarbústaði en oft voru þau sjötíu til áttatíu á ári. 

„Já, síðustu ár hefur dregið úr innbrotum um nærri helming frá því sem var fyrir nokkrum árum. Við skulum hafa í huga að það eru um 7000 bústaðir í Árnessýslu. Með það í huga hefði mátt búast við fleiri innbrotum. Hlið og aðrar varnir eru tvímælalaust að skila árangri í að fækka innbrotunum. Svo má geta þess að lögreglan verður með öflugt eftirlit í allri sýslunni fram yfir áramót. Eftirlitið er í samvinnu ríkislögreglustjóra og nágranna embættanna til að sporna við ölvunar- og fíkniefnaakstri. Í þessu eftirliti verða lögreglumenn á ferðinni í og við sumarbústaðabyggðirnar,“ segir Þorgrímur Óli.

mynd/lögreglan á selfossi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×