Innlent

Sex milljóna króna kostnaður vegna Friðarsúlunnar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Súlan verður tendruð næstkomandi fimmtudag.
Súlan verður tendruð næstkomandi fimmtudag. vísir/vilhelm
Áætlaður kostnaður fyrir árið 2014 vegna Friðarsúlunnar í Viðey er um sex milljónir króna. Þar af rúm hálf milljón í rafmagn. Raunkostnaður árið 2013 var um 5,5 milljónir króna. Þetta kemur fram í svari frá menningar- og ferðamálasviðs við fyrirspurn Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.

Ljósaperurnar í Friðarsúlunni er stærsti viðhaldskostnaðurinn en þær kosta borgina um 2,2 milljónir króna á ári. Um er að ræða sex 2000W perur og níu 7000W Xenon perur sem skipt er um á haustin ásamt því að ljósin eru stillt og samhæfð. Alhliðayfirferð á öllum búnaði fer fram þrisvar á ári. Langtímaviðhald og endurnýjun búnaðarins kostar borgina tvær milljónir króna.

Sex speglar varpa ljósi súlunnar upp á við og sérhannað stýrikerfi vaktar bilanir í ljósa- og loftræstibúnaði með reykskynjun, hreyfiskynjun, rakaskynjun, hitaskynjun og hvort kveikt sé á loftræstingu. Það telst einnig til búnaðarins og er hluti af verkinu en viðhald þess nemur 800 þúsund krónum, að því er fram kemur í svari menningar- og ferðamálasviðs. 

Friðarsúlan var tendruð í fyrsta sinn hinn 9. október 2007 og er árlega tendruð þann dag í tilefni af afmæli bítilsins John Lennon. Súlan er hugmynd ekkju hans, Yoko Ono.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×