Innlent

Sífellt fleiri kanna líkur á brjóstakrabbameini

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Mikil aukning hefur orðið á því að fólk leiti til erfðaráðgjafar Landspítalans til að kanna líkur á arfgengum sjúkdómum. Tvö hundruð og fimmtíu hafa greinst með stökkbreytingu í genum sem eykur líkur á krabbameini um allt að 80%.

Steinunn Sigurðardóttir fékk að vita á síðasta ári að hún bæri BRCA2 genið sem er annað þeirra tveggja gena sem tengd hafa verið við auknar líkur á brjóstakrabbameini. Hitt er BRCA1. „ Manni náttúrulega brá og vissi náttúrulega ekki nákvæmlega hvað þetta er," segir Steinunn.

Steinunn hafði greinst með brjóstakrabbamein árið áður. Ein af þremur dætrum hennar sem er búsett í Bandaríkjunum fékk að vita sama ár að hún bæri genið og hafði Steinunn samband við erfðaráðgjöf Landspítalans í framhaldinu. Síðar kom í ljós að önnur dóttir hennar til viðbótar ber BRCA2 genið.

Erfðaráðgjöfin hefur kannað gen um eitt þúsund Íslendinga en af þeim hafa 250 greinst með stökkbreytingu sem eykur líkur á brjóstakrabbameini. Það hefur aukist verulega að fólk leiti til erfðaráðgjafarinnar til að fá skoðun sérstaklega eftir að bandaríska leikkonan Angelina Jolie greindi frá því opinberlega á síðasta ári að hún bæri BRCA1 genið og hefði því látið fjarlægja bæði brjóst sín. Vigdís Stefánsdóttir, erfðaráðgjafi á Landspítalanum, segir að fyrst eftir að Angelina Jolie steig fram með sína sögu hafi helmingi fleiri leitað eftir ráðgjöf hjá þeim. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×