Innlent

Engin rök fyrir lægri launum leikskólakennara

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Haraldur Freyr Gíslason er formaður Félags leikskólakennara
Haraldur Freyr Gíslason er formaður Félags leikskólakennara VISIR/VALLI
Samband íslenskra sveitarfélaga vísaði kjaradeilu Félags leikskólakennara inn á borð til ríkissáttasemjara þann 23. maí síðastliðinn og var fyrsta fundi í samningaumleitunum að ljúka nú rétt í þessu.

Formaður Félags leikskólakennara, Haraldur Freyr Gíslason segir að á fundinum, sem stóð yfir í á aðra klukkustund, hafi kröfur leikskólakennara verið kynntar embættinu og hvaða staða væri uppi.

„Við erum að leita að leiðréttingu launa okkar til samræmis við aðra sérfræðinga með sömu menntun sem við verðum að sækja til að fylgja launaþróun,“ segir Haraldur í samtali við Vísi. „Við getum ekki leyft okkur að fara fram á minna og við munum ekki gefa neinn afslátt af okkar kröfum.“

Haraldur segir að leikskólakennarar muni ekki sætta sig við neitt annað en sömu hækkanir og grunnskólakennarar fengu. Einnig vilja þeir tímasetta áætlun til að leiðrétta og jafna starfskjör.„Það eru engin rök fyrir því að leikskólakennarar séu með lægri laun en aðrir kennarar, engin," segir Haraldur.

Næsti fundur með ríkissáttasemjara er boðaður næstkomandi miðvikudag. Niðurstaðna úr atkvæðagreiðslu um fyrirhugaða vinnustöðvun leikskólakennara þann 19. júní næstkomandi er einnig að vænta síðar í dag.

„Ef við bíðum lengur erum við í raun að samþykkja baráttulaust að verða samningslaus fram á haust. Ástæðan er augljós. Það verða engin tækifæri til að beita þvingandi aðgerðum þegar að allir eru í sumarfríi,“ segir Haraldur í bréfi sem sent var á leikskólakennara þegar atkvæðagreiðslan hófst.

„Það vantar 1300 leikskólakennara. Staðan er alvarleg. Það eina skynsama í stöðunni er að semja strax,“  sagði Haraldur í samtali við Vísi. 


Tengdar fréttir

Leikskólakennarar greiða atkvæði um vinnustöðvun

„Ef við bíðum lengur erum við í raun að samþykkja baráttulaust að verða samningslaus fram á haust. Ástæðan er augljós. Það verða engin tækifæri til að beita þvingandi aðgerðum þegar að allir eru í sumarfríi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×