Innlent

Leikskólakennarar greiða atkvæði um vinnustöðvun

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Ef við bíðum lengur erum við í raun að samþykkja baráttulaust að verða samningslaus fram á haust."
„Ef við bíðum lengur erum við í raun að samþykkja baráttulaust að verða samningslaus fram á haust." vísir/valli
Boðað hefur verið til atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun leikskólakennara hinn 19. júní næstkomandi, en Samband íslenskra sveitarfélaga vísaði í gær kjaradeilu sinni við Félag leikskólakennara til ríkissáttasemjara. Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara segir  að slagurinn verði ekki tekinn baráttulaust.

„Ef við bíðum lengur erum við í raun að samþykkja baráttulaust að verða samningslaus fram á haust. Ástæðan er augljós. Það verða engin tækifæri til að beita þvingandi aðgerðum þegar að allir eru í sumarfríi,“ segir Haraldur í bréfi sem sent var á leikskólakennara.

Kröfur leikskólakennara eru þær að leikskólakennarar fái sömu hækkanir og grunnskólakennarar sem og tímasetta áætlun til að leiðrétta og jafna starfskjör.

„Það vantar 1300 leikskólakennara. Staðan er alvarleg. Það eina skynsama í stöðunni er að semja strax,“  segir Haraldur í samtali við Vísi. Hann segir vandann alvarlegan og eins og staðan er núna uppfylli sveitarfélögin ekki lög númer 87/2008 um menntun og ráðningu kennara. 

„Það er gríðarlega mikilvægt að þátttaka í atkvæðagreiðslunni verði mikil og að félagsmenn verði sem flestir sammála samninganefndinni um að boða til þessa verkfalls. Það hefur ekki verið góð þátttaka í kosningum um hin ýmsu mál undanfarið. Það er mín von að nú stígi félagsmenn upp og sýni samstöðu.“

Náist samningar ekki verður boðað til sólarhringsverkfalls 19. júní. Haraldur segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um framhaldið, en það sé þó ljóst að leikskólakennarar sætti sig ekki við stöðuna eins og hún er núna. Fyrsta skref sé að fara á fund með ríkissáttasemjara, sem hefur þó ekki boðað til fundar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×