Innlent

Mikilvægt að vera hreinskilin

Birta Björnsdóttir skrifar
 

Að greinast með krabbamein snýr tilverunni á hvolf. Upp koma margar spurningar og ein þeirra er hvernig greina eigi börnum frá þeim nýju aðstæðum sem upp eru komnar í fjölskyldunni. Bókin Þegar foreldri fær krabbamein, er nú komin út í samstarfi við Kraft, sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Ein þeirra sem þekkir aðstæður sem þessar af eigin raun er Svanhildur Ásta Haig, en fyrrum eiginmaður hennar og barnsfaðir greindist með krabbamein í vélinda í ágúst árið 2008.

„Það var mjög stutt ferli frá því að hann greindist og þangað til hann dó,“ segir Svanhildur.

Hún segir vissulega misjafnt hversu mikið eigi að segja börnum í þessarri stöðu, það fari eftir því á hvaða aldri þau eru.

„Þau voru sjö og tíu ára og upplifðu hlutina á misjafnan hátt. Eldra barnið skildi auðvitað meira hvað var í gangi,“ segir Svanhildur.

„En það var ekkert hægt að fela það fyrir þeim hvað var í gangi. Þau horfðu upp á pabba sinn mjög veikan og það var ekkert hægt að fela það. Og þá sérstaklega þegar ljóst varð að ekkert var hægt að gera, þá er það eitthvað sem ekki er hægt að fara í feluleik með."

Svanhildur segir hennar reynsla vera þá að það borgi sig alltaf að vera hreinskilin og leyfa börnunum að upplifa að þau hafi eitthvað val.

„Þau tala um það þannig í dag að þeim fannst gott að fera inni í málunum og einnig um að hafa val um til dæmis hvenær þau heimsæktu hann á spítalann, það var auðvitað erfitt að horfa uppá hann svona veikan. Að þau hafi val um hversu mikið þau ætla að taka þátt í þessu. Allar tilfinningar hafa rétt á sér. Það er allt í lagi að eiga slæma daga og líða illa. Svo má einnig líða vel inn á milli án þess að fá samviskubit."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×