Innlent

Forsætisráðherra segir tilefni til þess að gera hlutina öðruvísi

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir úrslit kosninga til Evrópuþings gefa tilefni til þess að íhuga hvort gera þurfi hlutina öðruvísi. Forsætisráðherra Noregs segir úrslitin ekki óvenjuleg, í ljósi þeirra efnahagslegu erfiðleika sem lönd Evrópu hafa glímt við undanfarin ár.

Árlegum fundi forsætisráðherra Norðurlandanna lauk á Akureyri í dag en fundurinn hefur staðið í tvo daga. Öryggismál- og varnarmál, málefni norðurslóða, nýafstaðnar kosningar til Evrópuþings og þróun mála í Úkraínu voru á meðal þess sem ráðherrarnir ræddu.

„Þetta var mjög góður fundur og embætismenn höfðu það nú meira að segja á orði að þetta hafi verið óvenjugóður fundur. Samstaðan var mikil og menn sammála um að auka norrænt samstarf frekar en að draga úr því“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætirsráðherra.

Forsætisráðherra segir ráðherrana hafa verið sammála um að úrslit kosninga til Evrópuþings gefi tilefni til þess að íhuga hvort gera þurfi hlutina öðruvísi.

„Jafnframt væri auðvitað rót vandans þessir miklu efnahagslegu erfiðleikar sem Evrópusambandslöndin hafa verið að ganga í gegnum. Menn sjá ekki alveg fyrir sér að það leysist á næstunni, en þá er þeim mun meiri ástæða til þess að fólk upplifi það að verið sé að vinna í málunum.“

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, segir niðurstöður kosninganna bera þess merki að mörg lönd Evrópu hafa átt í mikum efnahagslegum erfiðleikum. Í kjölfar slíkra erfiðleika sé ekki óvenjulegt að nýjar stefnur og hugmyndir hljóti hljómgrunn.

„Ég held að skilaboðin til allra hefðbundinna stjórnmálamanna og til stærri stjórnmálaflokka í Evrópu séu þau að þeir verði að vinna betur að því að skapa atvinnu, auka samkeppnishæfni og hafa betri svör til kjósenda varðandi framtíðarþróun Evrópu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×