Myndin er byggð á einleik Sigurðar Sigurjónssonar um Afann sem var geysivinsæll á sínum tíma. Höfundur leiksýningarinnar vinsælu, Bjarni Haukur Þórsson, skrifar handrit myndarinnar í samstarfi við Ólaf Egilsson.
„Ég held að fólk sé búið að bíða mjög lengi eftir því að fá alvöru íslenska gamanmynd sem er með kjöt á beinunum. Handritið að myndinni er mjög gott og stemning í hópnum er frábær, sem er mjög mikilvægt og góð stemning er mikilvægari en margir halda,” segir Steindi sem er spenntur að takast á við hlutverkið.
Þetta er þó ekki frumraun Steinda í kvikmyndageiranum því hann lék í myndunum Okkar eigin Ósló og Algjör Sveppi og töfraskápurinn. „Hlutverkið mitt í Afanum er töluvert stærra en þau hlutverk sem ég hef leikið í fyrri myndum.“
Afinn verður tekin upp á Íslandi og á Kanaríeyjum. „Ég hlakka svakalega til að fara til Kanaríeyja því eftir tökur ætla að reyna plata Sigga Sigurjóns í sangríu og á vindsæng,“ segir Steindi léttur í lundu.
Steindi vakti mikla lukku fyrir leik sinn í síðasta áramótaskaupi og hafa grínþættirnir hans, Steindinn okkar, einnig notið mikillar velgengni. „Það er mikill munur á því að leika í skets og í kvikmynd. Þegar þú tekur upp sketsa eru hlutirnir oft að fæðast á staðnum en undirbúningurinn fyrir svona kvikmynd er talsvert meiri,” segir Steindi en æfingar fyrir myndina standa yfir þessa dagana.
Ásamt Steinda og Sigurði skartar myndin leikurum á borð við Þorstein Bachmann, Pálma Gestsson, Sigrúnu Eddu Björnsdóttur og Tinnu Sverrisdóttur, sem leikur kærustu Steinda í myndinni. „Einnig leikur Jón Gnarr djúníór í myndinni en hann er upprennandi stjarna.”