Innlent

Skemmdarverk í Gott í kroppinn: „Tjónið hleypur á milljónum“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gott í kroppinn er rekið af Sverri Kristjánssyni í stóru iðnaðareldhúsi að Ásbrú í Reykjanesbæ.
Gott í kroppinn er rekið af Sverri Kristjánssyni í stóru iðnaðareldhúsi að Ásbrú í Reykjanesbæ.
„Þetta var skemmdarverk fyrst og fremst,“ segir Sverrir Kristjánsson, eigandi fyrirtækisins Gott í kroppinn, en innbrot var framið í fyrirtækið um helgina og gengu hinir óboðnu gestir beinlínis berserksgang í húsnæðinu í Reykjanesbæ.

Búið var að velta um tækjum, tölvum og öðrum munum. Ekki liggur fyrir hversu mikið af búnaðinum er ónýtur. Þá var búið að henda fötum, sem höfðu að geyma krydd, í gólfið. Í kæligeymslu var búið að steypa úr tveimur stórum bölum sem höfðu að geyma humarsúpu og að auki hafði hveiti verið sturtað á gólf.

„Það virðist ekki hafa verið stolið neinu frá okkur. Öllu var rústað sem hægt var að rústa, tækjum tólum og vörum.“

Góður hluti af vörunum eru skemmdar.

„Sem betur fer var ekki alveg allt eyðilagt en tjónið hleypur á milljónum. Núna erum við bara að taka hér til að koma staðnum í gott ástand svo hægt sé að byrja framleiða hér á ný og pakka inn vörum.“

Engar öryggismyndavélar eru á staðnum og því er lítið vitað um það hver hafi verið að verki.

„Ég var hér með lögreglunni hér á laugardagskvöldið og ég held að það hafi náðst einhverjar upplýsingar en ég veit samt ekkert hvar rannsóknin stendur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×