Innlent

Notaði leynilegan reikning verkmenntaskólans til að draga sér fé

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Fjárdrátturinn uppgötvaðist þegar fjármálastjórinn fór í veikindaleyfi.
Fjárdrátturinn uppgötvaðist þegar fjármálastjórinn fór í veikindaleyfi. Vísir / Pjetur
Fyrrverandi fjármálastjóri Verkmenntaskólans á Akureyri notaði reikning sem átti að vera óvirkur til að færa peninga frá skólanum inn á eigin reikning. Þetta staðfestir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari skólans, við Vísi.

Konan var í gær dæmd til 15 mánaða fangelsisvistar fyrir að draga sér rúmar 26 milljónir króna frá skólanum. Tólf mánuðir refsingarinnar eru bundnir skilorði.

„Þetta uppgötvaðist þannig að þessi starfsmaður hafði verið í veikindaleyfi í svolítinn tíma og skrifstofustjórinn þurfti fyrir bragðið að fara aðeins dýpra ofan í vinnu hennar og þá kom þetta í ljós,“ segir Hjalti Jón aðspurður um hvernig upp komst um fjárdráttinn.

„Það var notaður í þetta bankareikningur í Landsbankanum sem átti ekki að vera til. Þetta var gert með einbeittum brotavilja og gert svo vel að hvorki við né ríkisendurskoðun hafði minnsta grun,“ segir hann. Reikningurinn sem um ræðir er gamall reikningur sem átti að vera búið að eyða.

Hjali segir málið hafa verið áfall fyrir samstarfsmenn konunnar og alla vera mjög slegna yfir glæpnum. „Þetta var mjög mikið áfall fyrir alla,“ segir hann. „Við höfum unnið þetta mál í samráði við ríkisendurskoðun og þetta kom þeim jafn mikið í opna skjöldu og okkur.“

Konan játaði brotið skýlaust eftir að gengið var á hana. Henni var umsvifalaust vikið frá störfum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×