Innlent

Íslendingar búsettir erlendis mega ekki koma með tollfrjálsan varning

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ef Íslendingur er  með lögheimili erlendis er litið svo á að hann komi hingað sem erlendur ríkisborgari, en ekki sem íslenskur ferðamaður.
Ef Íslendingur er með lögheimili erlendis er litið svo á að hann komi hingað sem erlendur ríkisborgari, en ekki sem íslenskur ferðamaður.
Íslendingar sem búsettir eru erlendis mega ekki koma með tollfrjálsan varning inn í landið þegar þeir koma hingað í heimsókn. Allt aðrar reglur gilda um þá en íslenska ferðamenn sem mega hafa með sér tollfrjálsan varning fyrir allt að 88.000 krónur, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Tollstjóra.

Er þetta vegna þess að ef Íslendingur er með lögheimili erlendis er litið svo á að hann komi hingað sem erlendur ríkisborgari, en ekki sem íslenskur ferðamaður.

Erlendir ríkisborgarar mega koma með vörur inn í landið sem þeir hafa miðað við tilgang ferðar sinnar. Vörurnar verða þó allar að fara úr landi aftur. Það á því líka við um Íslendinga sem búsettir eru erlendis.

Þó má koma með tækifærisgjafir, til dæmis jólagjafir, inn í landið en hver gjöf má þó ekki kosta meira en 13.500 krónur.

Eru þessar reglur nokkuð frábrugðnar þeim sem gilda um íslenska ferðamenn sem hafa lögheimili hér. Hver ferðamaður má koma með tollfrjálsan varning sem keyptur hefur verið í útlöndum, eða í fríhöfninni hér, fyrir 88.000 krónur að hámarki. Þó er það svo að allar vörur sem keyptar eru fyrir þriðja aðila eru tollskyldar og þarf því að greiða af þeim aðflutningsgjöld.

Er vert að hafa þetta í huga núna í desember þegar Íslendingar sem búa í útlöndum, til dæmis námsmenn, koma heim yfir hátíðarnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.