Innlent

Hlaða splundraðist í óveðrinu

Bjarki Ármannsson skrifar
Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík var kölluð út um áttaleytið í kvöld vegna mikilla skemmda á hlöðunni í Minnihlíð.
Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík var kölluð út um áttaleytið í kvöld vegna mikilla skemmda á hlöðunni í Minnihlíð. Vísir/Hafþór
Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík var kölluð út um áttaleytið í kvöld vegna mikilla skemmda á hlöðunni í Minnihlíð. Sigurjón Sveinsson, formaður Ernis, segir ýmsar hugmyndir á lofti um hvernig hlaðan skemmdist.

„Það er hjallur sem hefur splundrast þarna fyrir neðan og brak farið úr honum á hlöðu þarna og þakið fór af með öllu,“ segir Sigurjón. „Svo fór restin af brakinu í næsta fjárhúsið að ofan, eitthvað inn um glugga þar, og í rúllustafla á næsta bæ fyrir ofan.“

Hlaðan var mannlaus og engan sakaði. Sigurjón segir veðrið hafa verið svo hvasst þegar tilkynningin barst til björgunarsveitarinnar að bóndinn á næsta bæ við Minnihlíð hafi ekki þorað út til að athuga hvað hefði gerst.

„Við tókum það sem var laust og náðum að fergja það,“ segir hann. „En það vantar ábyggilega meira en helminginn af hlöðunni.“

Mikið fárvirðri hefur gengið yfir á Vestfjörðum í dag og í kvöld en Sigurjón segir það hafa gengið mikið niður á Bolungarvík. Liðsmenn Ernis séu þó áfram á vaktinni en mun minna er að gera hjá þeim nú en fyrr í kvöld.

„Það voru bárujárnsplötur, brotin rúða,“ segir hann um helstu verkefni Ernismanna. „Svona hefðbundið óveðursvesen.“

Hafþór Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, náði þessum myndum af hlöðunni í Minnihlíð nú fyrr í kvöld.

Vísir/Hafþór
Vísir/Hafþór
Vísir/Hafþór

Tengdar fréttir

„Glórulaus stórhríð“

Vindhraði náði hámarki á Vestfjörðum á milli átta og níu og mun vera hár áfram fram eftir kvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×