„Við, stjórn foreldrafélags og fulltrúar foreldra í skólaráði Nesskóla, mótmælum fyrirhuguðum niðurskurðaraðgerðum í grunnskólum Fjarðabyggðar sem samþykktar voru af fulltrúum meirihlutans á fundi fræðslunefndar 25. nóvember síðastliðinn.“
Þetta kemur fram í opnu bréfi til bæjaryfirvalda Fjarðabyggðar. Þar sem segir að fyrirhugaður niðurskurður bitni sérstaklega illa á Nesskóla á Neskaupstað og vegið sé að réttindum þeirra sem minnst mega sín, eins og börnum sem eiga við námsörðugleika að stríða.
Skorað er á bæjarráð að hafna nýjum viðmiðunarreglum um úthlutun kennslutímamagns og standa vörð um fram tíð barnanna.
„Þetta gengur þvert á þann anda sem ríkir nú í þjóðfélaginu þar sem rík áhersla er lögð á að bæta læsi og minnka brottfall úr framhaldsskólum. Einnig teljum við að brýnt sé að hlúa að starfsmönnum skólans sem vinna nú þegar undir miklu álagi,“ segir í bréfinu.
Foreldrarnir minna á kosningaloforð meirihlutans um að standa vörð um skólana í Fjarðabyggð.
Foreldrar mótmæla niðurskurði
Samúel Karl Ólason skrifar
