Mun færri leita aðstoðar hjá Hjálparstarfi kirkjunnar nú, en þegar mest var á fyrstu árunum eftir hrun. Félagsráðgjafi hjálparstarfsins segir þetta merki um að efnahagslífið sé á uppleið en á sama tíma sé fólk og fyrirtæki tregari við að gefa til starfsins.
Þessa dagana er fjöldi hjálparsamtaka hér á landi að undirbúa jólaaðstoð. Slík aðstoð hefur verið í boði um árabil en tilgangurinn er að gera efnalitlum fjölskyldum kleift að halda jól. Umsóknir eru þegar farnar að berast en hjá Hjálparstarfi kirkjunnar er búist við að fjöldi umsókna verði svipaður og í fyrra. Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, segir langstærsta hópinn sem leitar sér aðstoðar hjá þeim vera öryrkja og einstæða foreldra.
Vilborg segir að strax eftir hrun hafi þeim sem þurftu á mataraðstoð hjálparsamtakanna að halda fjölgað mikið. Þegar mest var hafi um fimm þúsund fjölskyldur leitað til Hjálparstarfs kirkjunnar og óskað eftir aðstoð. Síðustu misseri hafi þeim farið fækkandi og í dag séu um tvö þúsund og fjögur hundruð fjölskyldur sem leita til samtakanna til að fá mataraðstoð. „Fleiri sem ekki eru í þessum hrikalega vanda sem þeir voru í fyrst eftir hrun,“ segir Vilborg og það skipti miklu máli að fleiri hafi atvinnu en þá.
Vilborg telur þetta ákveðið merki um að efnahagslífið sé að rétta úr sér. Fólk og fyrirtæki séu hins vegar tregari nú en strax eftir hrun til að gefa til samtakanna. „ Í góðærinu þá var miklu erfiðara að afla peninga. Það er einhvern veginn þegar að fólk hefur það erfitt þá er eins og það muni frekar eftir hinum sem hafa það erfiðara og gefa. Við finnum mikinn mun á því bara hvað við erum að fá bæði frá almenningi, fyrirtækjum og stofnunum,“ segir Vilborg.
Færri þurfa mataraðstoð
Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar