Innlent

Ekki alltaf þeir sem hafa hæst í fjölmiðlum sem standa sig best

Edda Sif Pálsdóttir skrifar
Tómas Björnsson, meistaranemi í endurskoðun, segir margt fatlað fólk halda sig um of til baka í stað þess að ögra sjálfu sér. Hömlurnar verði þannig sjálfskapaðar og meiri en líkamlega hömlunin í raun sé. Sjálfur er hann hreyfihamlaður en kaus að skilgreina sig ekki sem slíkan. Á unglingsárum lagði hann göngugrind sem hann hafði stuðst við frá því hann byrjaði að ganga og lagði þeim mun meira á sig til að geta verið án hennar. 

„Í Svíþjóð t.d. er fólk miklu sjálfstæðara en hér. Fólk sem er mikið líkamlega fatlað er að gera hluti sem mér dytti ekki í hug að gera. Það er bara því það er staðið að þessum börnum 100%. Þeim er kennt af fagfólki hvernig á að bera sig að í þessu og hinu. Þetta er ekki svona hérna heima,“ segir Tómas.

Uppeldið telur hann líka spila lykilhlutverk. Foreldrar eigi ekki að halda aftur af hreyfihömluðum börnum vegna þess að þeir sem foreldrar haldi að barnið geti ekki gert þetta eða hitt. Ofverndun geri engum gott. 

„Ég hef látið mömmu mína og pabba heyra það nokkrum sinnum. Móðurhjartað er bara svo lítið og vill svo vel og það er bara þannig að mömmurnar passa ungana sína. En það má bara ekki verða þannig að það leiði til verri lífsgæða en annars.“ 

Rætt var við Tómas í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×