„Ég slapp nú mjög vel frá þessu miðað við allt,“ segir Akureyringurinn Atli Sigurjónsson, knattspyrnumaður, sem lenti í alvarlegu bílslysi í gær þegar bíll hans fór útaf veginum og fór tvær veltur. Atli leikur með KR í Pepsi-deild karla en hann er uppalinn á Akureyri.
Atli var á leiðinni frá Akureyri að Víkurskarði ásamt vini sínum þegar atvikið átti sér stað. Bílinn ku vera gjörónýtur. Atli var ökumaður í bifreiðinni.
„Ég var að mæta öðrum bíl sem var að keyra á miðjum veginum og þurfti snarlega að víkja fyrir honum út í kant. Þá missti ég stjórn á bílnum og við fórum útaf. Bíllinn fór líklega tvær veltur.“
Atli slapp nokkuð vel og finnur aðeins fyrir eymslum í hálsi og neðarlega í baki. Vinur hans slapp vel.
„Ég var nokkuð rólegur í veltunni sjálfri en þegar við vorum lentir áttaði ég mig á því að ég hafði fengið nokkuð þungt höfuðhögg. Ég leit þá niður og sá blóð á hendinni minni. Þá fékk ég smá áfall þar sem hurðin mín megin var föst.“
Atli segir að strákurinn sem var með honum í bílnum hafi náð að halda ró sinni og var snöggur að aðstoða Atla út úr bílnum með því að moka snjó frá hurðinni.
„Við vorum báðir í bílbelti og það má svo sannarlega segja að það hafi bjargað okkur í þessu tilfelli.“
Vinir í lífshættu: Fékk áfall þegar hann sá blóð á hendinni
Stefán Árni Pálsson skrifar
