Innlent

Parkinsonsamtökin fagna niðurstöðum nýrrar rannsóknar

Jakob Bjarnar skrifar
vísir
Sænsk rannsókn þykir sýna að stofnfrumur geti lagað heilaskemmdir sem orsakast af Parkinsonsjúkdómi.

Hægt er að nota stofnfrumur til að lækna skemmdir í heila, þær sem Parkinsonsjúkdómurinn hefur valdið. Þessu halda vísindamenn í Svíþjóð fram en þeir hafa kynnt niðurstöður rannsókna sinna sem byltingarkenndar.

Lyf og örvun á heila minnka sjúkdómseinkenni en þessi rannsókn sýnir að það sé hægt að breyta stofnfrumum í fullkomnar taugafrumur sem framleiða dópamín en ástæða Parkinsonsjúkdómsins er skortur á taugafrumum í heila sem framleiða dópamín. Hingað til hefur verið talið að ekki sé nein lækning við þessum erfiða sjúkdómi en rannsóknin sýnir að hugsanlega getur verið um lækningu að ræða, ekki bara það að halda megi sjúkdómnum niðri.

Á Íslandi eru um 700 manns að gíma við Parkinsonsjúkdóminn. Félagsmenn í Parkinsonsamtökunum á Íslandi eru um 500 manns sem skiptist jafnt í Parkinsongreinda og aðstandendur. Snorri Már Snorrason er formaður samtakanna á Íslandi og hann segir rannsóknina vissulega tilefni til bjartsýni.

„Og við fögnum hverju skrefi í rétta átt. Við viljum samt halda okkur niðri á jörðinni því það er enn langt í land en við erum vongóð og bjartsýn á framtíðina.“

Þau hjá Parkinsonsamtökunum gera fastlega ráð fyrir því að íslenskir taugalæknir fylgist vel með gangi máli. Enn hefur ekki verið hægt að nota meðferðina sem til rannsóknar hefur verið á menn.

„Það er algjörlega óvíst hvenær þetta fer að gagnast sjúklingum en eins og kemur fram í fréttinni á BBC þá gera Svíarnir ráð fyrir að byrja rannsóknir á fólki eftir 3 ár eða árið 2017. Það er mörgum spurningum ósvarað en þessi rannsókn er vissulega mikið framfaraskref,“ segir Snorri Már.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×