Innlent

750 starfsmönnum sagt upp yfirvinnu og bílastyrk

Stefán Árni Pálsson skrifar
vísir/stefán/facebook
750 starfsmenn Reykjanesbæjar fengu eiginlegt uppsagnarbréf í fjölpósti á fimmtudaginn. Þetta kemur fram í aðsendri grein sem Davíð Jón Kristjánsson sendi á Víkurfréttir en hann er einn starfsmannanna. Í bréfinu var starfsmönnunum tilkynnt að af þeim yrðu teknar allar sporslur þ.e. bílastyrkur og næturvinna.

Davíð Jón Kristjánsson er starfsmaður í Ráðhúsi Reykjanesbæjar á fjölskyldu og félagssviði, en þar svara tveir starfsmenn sem eingöngu starfa við málefni sem snúa að hælisleitendum.

Fram kemur í grein Davíðs að hann sé með u.þ.b 270.000 kr. í grunnlaun á mánuði. Ofan á það fái hann þrjátíu næturvinnutíma og hefur einnig verið með bílastyrk.

„Þetta eru nú öll ofurlaunin sem maður hefur hjá bænum. Og fyrir þessi ofurlaun hef ég þurft að sinna ýmsum miserfiðum verkefnum t.d jarða nýfætt barn, ég hef setið yfir einstaklingum í sjálfsvígs hugleiðingum vegna þess að þeir fá ekki inni á viðeigandi stofnunum, í hungurverkföllum o.fl. Ég hef fengið yfir mig svívirðingar, hótanir um líkamsmeiðingar og jafnvel nauðganir. Ég hef þurft að kalla til lögreglu eftir aðstoð oftar en ég get talið. Ég hef líka fengið að kynnast og vinna með fullt af yndislegu og frábæru fólki allsstaðar af úr heiminum og það er það sem gerir starfið þess virði að vinna það, ekki ofurlaunin,“ segir Davíð í greininni.

Í gær fékk Davíð ásamt 749 öðrum starfsmönnum Reykjanesbæjar eiginlegt uppsagnarbréf sent í tölvupósti. En í bréfinu var þeim tilkynnt að teknar yrðu frá þeim á allar sporslur þ.e. bílastyrkur og næturvinna. Bréfið var undirritað af Friðjóni Einarssyni fulltrúa meirihlutans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

„Þetta var vissulega mikið áfall fyrir allan þann fjölda sem hér starfar, fólk var sárt og reitt en enginn af þeim sem komu að þessari ákvörðun hafði séð það fyrir. Margir áttu erfitt með að sinna vinnu sinni það sem eftir leið dags og sumir hefðu einfaldlega þurft á áfallahjálp eða handleiðslu að halda, einhvern til að tala við en enginn þessara „háu herra“ gátu séð það fyrir. Þessi aðgerð var samþykkt í bæjarráði þennan sama morgun 6. nóvember 2014, nokkrum mínútum áður en „fjölpósturinn“ var sendur á starfsmenn Reykjanesbæjar.“

Aðgerðin var samþykkt af þremur fulltrúum meirihlutans í bæjarráði, Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og einn af tveim fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sat hjá og Böðvar Jónsson sagði nei við tillögunni. 



„Á sama fundi bæjarráðs lagði Kristin Jakobsson fulltrúi framsóknarflokks til að frá og með 1. janúar 2015 falli föst laun bæjarráðsmanna niður og einungis verði greitt fyrir setu á stökum fundum bæjarráðs. Þessi aðgerð myndi spara bæjarfélaginu 28,5 milljónir á kjörtímabilinu. Tillagan var feld.

Þegar fólk svo mætti til vinnu í morgun var talað um að allavega þrír starfsmenn hjá Ráðhúsinu, þrír sérfræðingar á sínu sviði höfðu sagt starfi sínu lausu og fleiri eiga eftir að fylgja. Við eigum mjög hæft starfsfólk, fagfólk og allir sérfræðingar á sínu sviði. Viljum við sjá á eftir þessu fólki?, Komum við til með að fá nýtt og hæft fólk til starfa við þessi skilyrði?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×