Innlent

„Þú vilt þó líklegast ekki smakka skoska matinn“

Atli Ísleifsson skrifar
Pauline McCarthy (til hægri) segir alltaf vera skemmtilegt á Þjóðahátíð Vesturlands.
Pauline McCarthy (til hægri) segir alltaf vera skemmtilegt á Þjóðahátíð Vesturlands.
„Þetta er alltaf skemmtilegt. Það verður boðið upp mat frá mörgum löndum. Það má smakka indverskan mat, taílenskan, skoskan og svo framvegis. Þú vilt þó líklegast ekki smakka skoska matinn. Skalt prófa eitthvað annað,“ segir Pauline McCarthy létt í bragði en hún er einn skipuleggjenda Þjóðahátíðar Vesturlands sem haldin verður í íþróttahúsinu á Vesturgötu á Akranesi í dag.

Félag nýrra Íslendinga stendur fyrir hátíðinni, en þetta er sjötta árið í röð sem hátíðin er haldin. Pauline segir fulltrúar fjölda þjóða muni taka þátt í ár og verði með með mat frá sínu landi sem hægt er að bragða á og svo verða skemmtiatriði frá ýmsum löndum.“

Heiðursgestur hátíðarinnar er sendiherra Kanada á Íslandi, Stewart Wheeler, sem mun flytja ávarp á íslensku. Pauline segist ekki hafa tölu á hvað margar þjóðir eigi fulltrúa á hátíðinni en að alls séu borðin fjörutíu. „Það verða búlgarskir söngvarar, Bollywood-dansarar, spænskur Flamenco-dansari, ensk þjóðlagatónlist, afrískir trommarar frá Keníu, íslenskir söngvarar og fleiri og fleiri.“

En hyggst þú sjálf troða upp?

„Já, ég mun syngja lög á keltnesku,“ segir Pauline sem vakti sjálf athygli í þáttunum Iceland Got Talent síðasta vetur.

Hátíðin er haldin í íþróttahúsinu á Vesturgötu á Akranesi og hefst klukkan 14 og stendur til 17. Pauline segir að frítt sé inn á hátíðina og að margir verði með varning til sölu. Hún bendir þó á að ekki verði posar á staðnum og hvetur því fólk til að mæta með reiðufé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×