Innlent

„170 starfsmenn en ekki 750“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kjartan Már Kjartansson er bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson er bæjarstjóri Reykjanesbæjar. VÍSIR/STEFÁN/FACEBOOK
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sendir í dag yfirlýsingu til Víkurfrétta vegna aðsendrar greinar sem Davíð Jón Kristjánsson sendi á miðilinn. Í greininni kom meðal annars fram að 750 starfsmenn Reykjanesbæjar fengu eiginlegt uppsagnarbréf í fjölpósti á fimmtudaginn. Í því bréfi var starfsmönnunum tilkynnt að af þeim yrðu teknar allar sporslur þ.e. bílastyrkur og næturvinna.

Kjartan segir nokkur atriði í greininni einfaldlega vera röng og ekki eiga við nein rök að styðjast.

„Bæjarráð samþykkti að segja upp ákvæðum um fasta yfirvinnu og fasta akstursstyrki hjá þeim starfsmönnum sem væru með slík ákvæði, annað hvort eða bæði, í sínum ráðningarsamningum. Það munu vera um 170 starfsmenn en ekki 750 eins og segir í greininni. Uppsagnarfrestur er sá sami og á ráðningarsamningum í heild, hjá flestum 3 mánuðir. Breytingin mun því taka gildi frá 1. mars 2015. Einnig var ákveðið að draga úr annarri yfirvinnu í kerfinu eins og kostur er. Það ákvæði snertir hins vegar alla starfsmenn sveitarfélagsins en þeir voru 962 um síðustu mánaðarmót. Þessi 750 tala á því ekki við rök að styðjast.“

Kjartan segir að tölvupósturinn sem sendur var hafi verið til upplýsingar en ekki uppsögnin sjálf.

„Það var gert til þess að starfsmenn sveitarfélagsins þyrftu ekki að lesa um hana í fjölmiðlum en fundargerðir bæjarráðs eru gerðar opinberar strax að fundum loknum og innihalda oft efni og afgreiðslur sem fjölmiðlum þykja áhugaverðar og skrifa um. Þess vegna vitum við að fjölmiðlar bíða spenntir eftir fundargerðunum og þessar ákvarðanir þóttu, eins og komið hefur fram, mjög fréttnæmar.“

Hann segir að skriflegar uppsagnir séu væntanlegar.

„Þessi afgreiðsla og ákvörðun bæjarráðs er svo forsenda þess að hægt sé fyrir stjórnendur Reykjanesbæjar að setjast niður, maður á mann, með þeim starfsmönnum sem málið varðar og segja upp þessum ákvæðum í ráðningarsamningum á skriflegan hátt. Þau samtöl munu eiga sér stað á næstu dögum og vikum og verður lokið fyrir næstu mánaðarmót.“

Að sögn bæjarstjórans mun komandi fyrirkomulag vera mun réttlátara.

„Um síðustu mánaðarmót greiddi Reykjanesbær tæplega 10 þús. klst. vegna fastrar og/eða unninnar yfirvinnu um 750 starfsmanna. Það þýðir að hver þessara 750 starfsmanna hafi unnið að meðaltali um rúmlega 12 klst. í yfirvinnu í mánuðinum. Auðvitað var það ekki svo. Sumir unnu meira og aðrir minna. Sumir þeirra sem eru með ákveðinn fjölda fastra yfirvinnutíma, eins og Davíð Jón, unnu meira og aðrir minna.“

Kjartan segir að með því að fella niður ákvæði um fasta yfirvinnu munu allir starfsmenn fá réttlátari greiðslur.

„Davíð Jón segist hafa unnið 48 klst. í mánuðinum á undan en aðeins fengið 30 greidda. Er einhver sanngirni í því? Ef nýja fyrirkomulagið hefði verið komið á hefði hann fengið hærri og réttlátari laun miðað við vinnuframlag sitt að því tilskyldu að hans næsti yfirmaður hefði samþykkt vinnuframlagið og talið það nauðsynlegt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×