Innlent

Lögreglan sendi óeinkennisklædda nemendur lögregluskólans út á meðal mótmælenda

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Mótmælafundir voru haldnir reglulega á árunum 2008 og 2009.
Mótmælafundir voru haldnir reglulega á árunum 2008 og 2009. Vísir / Daníel
Lögreglan sendi nemendur úr lögregluskólanum út á meðal mótmælenda fyrir utan Alþingishúsið 15. nóvember árið 2008. Nemendurnir voru óeinkennisklæddir og blönduðust því í hóp mótmælenda.  Þetta kemur fram í skýrslu Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns, um mótmæli á árunum 2008 til 2011.

Lögreglan bjóst við hörðum aðgerðum af hendi nokkurra mótmælenda; nokkurra anarkista og 50 til 100 manna hóps sem þeim fylgdi. „Var ákveðið að fá óeinkennisklædda skólanema Lögregluskólans til að vera innan um mótmælendur til að sjá hvort eitthvað væri í aðsigi sem kallaði á aðgerðir lögreglu,“ segir í skýrslunni.

Þetta er ekki eina dæmið sem finna má í skýrslunni um að óeinkennisklæddir lögreglumenn hafi verið sendir út á meðal mótmælenda til að afla upplýsinga. Til að mynda voru óeinkenndir rannsóknarlögreglumenn á ferðinni þann 17. desember sama ár til að afla upplýsinga um hvar búast mætti við mótmælum á hverjum tíma. Fleiri dæmi um þetta eru nefnd í skýrslunni.

Í skýrslunni er einnig sagt frá því að óeinkenndur lögreglumaður hafi blandað sér í hóp hústökufólks við Vatnstíg þann 14. apríl árið 2009. Segir frá því að hann hafi heyrt á tali fólks að verja ætti húsið fram á nótt og að lögreglu yrði veittur mótþrói. Daginn eftir réðist lögregla inn í húsið og handtók sextán manns. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×