Innlent

„Spítali verður ekki rekinn án lækna“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum hefur þungar áhyggjur af yfirvofandi verkföllum lækna og skurðlækna, sem samþykktu verfallsboðun með miklum meirihluta í vikunni. 

„Atburðir eins og þessir valda á allan hátt auknu álagi á spítalann. Þetta er mjög slæm staða að vera í“, segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á LSH.

Verkfallsréttur lækna er takmarkaður en lögum samkvæmt verður veikustu sjúklingunum tryggð nauðsynleg þjónusta. Félagsmenn í Læknafélagi Íslands verða aldrei samtímis í verkfalli, en um er að ræða fimm fjögurra daga verkfallslotur á tveggja vikra fresti frá og með 27 október. Sama fyrirkomulag verður á verkfallslotum félagsmanna í skurðlæknafélaginu, en þær verða þrjár frá og með fjórða nóvember.

Það er því ljóst að verkföllin munu skarast, en Ólafur segir stjórn Landspítalans þegar hafa hafið vinnu við gerð viðbragsðáætlunar með tilliti til öryggismála vegna þessa.

„Við erum að byrja þennan undirbúning, en það kostar mikla vinnu og mikla fyrirhöfn að stilla þetta allt saman. Það er alveg ljóst að spítali verður ekki rekinn án lækna,“ segir Ólafur. 

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, segir að þjóðarsátt þurfi að nást um að læknastéttin verði samkeppnishæf við nágrannaríkin. 

„Ég tel að við eigum, og hef talað fyrir því, að vera samkeppnisfær á sviði heilbrigðisvísinda og starfsmannahaldi á við önnur Norðurlönd. Raunar er það inni í stjórnarsáttmálanum okkar og ég tel það sameiginlegt verkefni okkar Íslendinga að búa svo um hnútana að þannig sé,“ segir Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×