Innlent

Á annað hundrað erlendra útsendara Íslands í heimsókn

Heimir Már Pétursson skrifar
Hundrað og þrjátíu ræðismenn Íslands frá 57 löndum funda nú í Reykjavík til að kynna sér land og þjóð. Þetta er fyrsti fundur af þessu tagi frá því fyrir hrun efnahagslífsins. Ræðismennnirnir gáfu utanríkisráðuneytinu borð sem smíðað er úr viðarbútum frá öllum löndunum sem þeir starfa í.

Það er ómetanlegt fyrir fámennt ríki eins og Ísland að eiga 130 fulltrúa víðs vegar um heim í sjálfboðavinnu fyrir Ísland. En þeir aðstoða bæði íslensk fyrirtæki og ekki hvað síst íslenska ferðamenn hvort sem þeir lenda í vandamálum eða ekki.

Ræðismenirnir gáfu utanríkisráðuneytinu borð sem smíðar er úr viði frá öllum þeim löndum sem Ísland hefur ræðismenn en bútarnir koma m.a. úr sumarbústað sem rifinn var á Borgundarhólmi og bryggju í Bergen. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra þakkaði hinum erlendu ræðismönnum fyrir gjöfina og þjóustu þeirra við íslensku þjóðina.

„Kosningar utan kjörfundar, vegabréfsmál, samskipti við fjölmiðla og neyðaráætlanir ýmis konar eru allt mál sem koma upp í utanríkisþjónustunni.  Og þið ræðismennirnir veitið ómissandi þjónustu í þessum efnum til Íslendinga um allan heim,“ sagði Gunnar Bragi.

Ræðismenn Íslands eru yfirleitt vel tengdir í heimalandi sínu, eins og Elizabeth Sy aðalræðismaður Íslands á Filipseyjum sem er úr fjölskyldu sem á banka, stórar verslunarmiðstöðvar og hótel um allar Filipseyjar. Löndin eiga margt sameiginlegt eins og eldfjöll, jarðhita og blómlegan sjávarútveg. Sy segir landa hennar ekki vita mikið um Ísland.

„Nema að þetta hljóti að vera land íss en ég reyni að fræða þá. Filipseyingar huga lítið að viðskiptum við Ísland enn sem komið er. Ég hef hins vegar verið að reyna að upplýsa þá um jarðhitaþekkingu Íslendinga og fiskveiðitækni. Þannig að Filipseyingar eru smátt og smátt að læra meira um möguleikana á samskiptum og viðskiptum og möguleikarnir eru miklir,“ segir Sy.

Innanríkisráðherra og fjármálaráðherra fluttu erindi og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra settist við píanóið í Eldborg og lék undir hjá sópransöngkonunni Þóru Einarsdóttur, eins og sjá má í sjónvarpsfréttinni hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×