Innlent

Sala ríkiseigna fer í lækkkun skulda ekki nýjan spítala

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ekki er á dagskrá hjá ríkissjóði að fjármagna byggingu nýs Landspítala með sölu ríkiseigna þar sem tekjur af slíkri sölu munu nær allar fara í lækkun skulda. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í forgangi að lækka vaxtabyrðina.

Á síðasta starfsdegi sínum fyrir þinghlé sl. vor samþykkti Alþingiþingsályktun um að flýta fyrir byggingu nýs Landspítala með 56 atkvæðum gegn engu.

Heilbrigðisráðherra sagði í fréttum RÚV á mánudag að sala á ríkiseignum kæmi skoðunar til að fjármagna nýjan spítala. Ráðherrann tilgreindi ekki hvaða eignir þetta væru. 

Þriðji stærsti útgjaldaliðurinn er vaxtakostnaður

Þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er vaxtakostnaður, eða 84 milljarðar króna.

Það er forgangsverkefni hjá fjármálaráðuneytinu að lækka skuldir ríkissjóðs með það fyrir augum að lækka vaxtabyrðina. Lækkun vaxtakostnaðar er í raun eitt stærsta velferðarmálið því kostnaðurinn stendur útgjöldum til velferðarmála fyrir þrifum.

Í kynningarefni fjármála- og efnahagsráðherra um fjárlögin segir t.d. orðrétt: 

„Meginvandi ríkissjóðs er gríðarlegar skuldir og verulega íþyngjandi vaxtajöfnuður.“

Þá kom fram í glærukynningu Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við kynningu fjárlagafrumvarpsins að skuldir yrðu lækkaðar m.a. með sölu ríkiseigna. 

Bjarni segir að ríkisstjórnin leggi á það áherslu að standa við þingsályktun um byggingu spítalans. Hins vegar sé lækkun skulda í forgangi.

Er raunhæft að gera ráð fyrir að fé sem fæst með sölu ríkiseigna fari í byggingu nýs spítala? „Þær ríkiseignir sem við erum fyrst og fremst að horfa á nær okkur í tíma er Landsbankinn og við höfum séð fyrir okkur að nota söluandvirðið til þess að greiða upp lán sem við tókum til þess að endurreisa bankann. Þannig að við notum það fé ekki tvisvar sinnum.“

Bjarni segir að stilla verði væntingum í hóf í þessu samhengi. 

„Næsta verkefni er að athuga hvernig við getum minnkað vaxtabyrðina og lækkað skuldastöðuna og það gerum við ekki með frekara aðhaldi í ríkisrekstrinum (innsk. sparnaði) vegna þess að það hefur verið töluvert hátt aðhaldsstig undanfarin ár og þess vegna verðum við að horfa til sölu eigna í þeim tilgangi. Og fyrst og fremst í þeim tilgangi, að létta vaxtabyrði, borga niður skuldir,“ segir Bjarni Benediktsson. 

Sjá má viðtal við Bjarna úr kvöldféttum Stöðvar 2 í myndskeiði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×