Innlent

Hjúkrunarfræðingar munu ekki taka á sig auknar skyldur

Hjörtur Hjartarson skrifar
Læknar samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir sem munu, að öllu óbreyttu, hefjast 27.október. Hjúkrunarráð Landspítalans segir að álag á aðra heilbrigðisstarfsmenn muni aukast sem geti haft áhrif á öryggi sjúklinga.

Alls tóku 728 læknar þátt í atkvæðagreiðslunni sem gerir um 80 prósent þátttöku. 96 prósent þeirra sem greiddu atkvæði sögðust fylgjandi verkfallsaðgerðum. 15 læknar sögðu nei og 14 skiluðu auðu.

Hjúkrunarráð Landspítalans sendi frá sér tilkynningu í dag þar miklum áhyggjum er lýst yfir stöðu mála. Þar segir "Biðlistar eftir þjónustu munu lengjast og aukið álag verður á aðra heilbrigðisstarfsmenn sem  getur haft áhrif á öryggi sjúklinga."



Formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga tekur í sama streng.

„Þetta er náttúrulega grafalvarlegt mál og ég vona að viðsemjendur nái saman áður en til verkfalls kemur. Skelli verkfall á mun það auðvitað auka álag á alla heilbrigðisstarfsmenn og hjúkrunarfræðinga líka en ég treysti því að þeir nái að semja áður en að því kemur,“ segir Ólafur Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.



„Telurðu að fleiri skyldur muni falla á herðar hjúkrunarfræðinga ef af verkfalli verður?“



„Ég á nú ekki von á því. Við munum sinna okkar venjubundnu hjúkrunarstörfum eins og ég sagði áður og við munum ekki taka á okkur auknar skyldur, það er ekki okkar hlutverk í þessu máli,“ segir Ólafur.





Áætlað er að verkfallsaðgerðir lækna hefjist 27.október og standi í sjö vikur. Þær samanstanda af nokkrum tveggja sólarhringa verkföllum á mismunandi sviðum heilbrigðiskerfisins. Aðgerðirnar munu hafa áhrif um allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×