Innlent

„Bara ef hún hefði fengið aðeins meiri tíma“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hún var baráttukona sem opnaði umræðuna um dreifingu mynda af nöktum stúlkum undir lögaldri á netinu.

Tinna Ingólfsdóttir var þrettán ára þegar hún sendi fyrst manni, sem hún taldi til vina sinna, myndir af sér sem fóru að lokum í dreifingu á netinu. Tveimur vikum eftir að Tinna var í viðtali um málið í Íslandi í dag í maí varð hún bráðkvödd á heimili sínu.

Málið hafði mikil áhrif á Tinnu sem segir mikilvægt að skuldinni sé fyrst og fremst skellt á þá sem birta slíkar myndir.

Móðir hennar dáist að hugrekki dóttur sinnar og segir það hafa skipt miklu máli enda veitti Tinna almenningi innsýn inn í hugarheim þeirra sem verða fyrir slíku ofbeldi.

mynd/skjáskot
„Tinna var mögnuð stelpa,“ segir Inga Vala Jónsdóttir, móðir Tinnu, í þættinum Ísland í dag. 

„Hún var sérstök, og kannski ekki allra. Hún var alltaf öðruvísi og hafði sterka réttlætiskennd og var í raun mótuð af mótlæti.“

Sjálf sagðist Tinna hafa átt erfitt með að eignast vini í æsku en hún er uppalin á Akureyri. Þegar Tinna var komin á unglingsaldurinn byrjaði hún að spjalla við fólk á netinu og stofna til vinasambanda þar. 

„Þegar maður er svona vanur því að öllum finnist maður asnalegur, kjánalegur og enginn vill tala við mann þá gerir maður hvað sem er til að einhver haldi áfram að tala við mann,“ sagði Tinna á Stöð 2 í maí þegar málið var til umræðu. 

„Mér var í raun sama hvort þetta væri á netinu því sjálfsálit mitt var í molum og eiginlega í núlli. Þetta skipti mig engu máli, það var meira sjálfsálit foreldra minna sem ég var að hafa áhyggjur af.“

Foreldrar Tinnu fengu umræddar myndir sendar inn um dyralúguna á heimili sínu. 

„Þær komu bara inn um lúguna í umslagi merktu mér. Þetta var auðvitað áfall. Ég veit það núna að þetta var stúlka á svipuðum aldri og Tinna sem þekkti hana sem sendi þessar myndir. Ég er þakklát henni í dag því ég held að Tinna hafi ekki náð að vinna eins vel úr sínum málum ef þetta hefði ekki komist upp strax.“

Inga Vala segir að foreldrarnir hafi einnig upplifað ákveðna skömm rétt eins og Tinna sjálf. 

„Guð minn góður hvernig uppalandi er ég, var það fyrsta sem maður hugsaði. Við vorum það reið að við fórum til lögreglunnar og vorum þar í raun afgreidd í gegnum glerið.“

Inga segir að þau hafi upplifað að samfélagið liti ekki á ofbeldi sem þetta sömu augum og annarskonar ofbeldi. Tinna var greind með áfallastreituröskun rétt áður en hún fór í viðtalið í Íslandi í dag og málið hafði gríðarleg áhrif á hana. 

mynd/skjáskot
„Það sem vissum ekki á þessum tíma var að hún var byrjuð að nota kannabis,“ segir Inga Vala. 

Inga Vala varð sjálf fyrir kynferðisofbeldi þegar hún var yngri. 

„Það tengist sennilega einnig skömminni og að ég hafi ekki getað tekið á þessu af fullum krafti. Ég hefði til dæmis getað farið í fjölmiðla á sínum tíma og talað um hvað þetta væri mikið vandamál og ekki í lagi.“

Inga Vala segir að sú staðreynd að hún hafi sjálf orðið fyrir kynferðisofbeldi sem unglingur hafi hjálpað henni að koma dóttur sinni af stað.

Foreldrar Tinnu voru nýkomin til Spánar þann 21. maí þegar þau fengu skelfilegar fréttir frá Íslandi. 

„Tengdamóðir mín hringir til þess að segja okkur það að Tinna hafi fundist látin um morguninn. Þetta var auðvitað bara súrrealískt því tveimur vikum áður hafði ég misst systurson minn. Við vitum ekki hvað gerðist, hún fannst á baðgólfinu heima eins og hún hefði bara farið á snyrtinguna.“

Inga Vala segir að þeim hafi strax verið tilkynnt um það að það benti ekkert til þess að um sjálfsvíg hafi verið að ræða. 

„Hún varð í raun bara bráðkvödd, einskonar skyndidauði. Hún hafði sýnt ákveðin einkenni áður en hún féll stundum í yfirlið af einhverjum ástæðum. Það hefur samt engin skýring fundist.“

mynd/skjáskot
Dagurinn sem Tinna var jörðuð var erfiður dagur fyrir fjölskylduna því þær systurnar jörðuðu börnin sín á sama deginum.

„Hennar drengur fyrirfór sér og það var búið að ákveða þennan útfaradag með löngum fyrirvara og fyrir Spánarferðina okkar. Ég sá þá ferð sem svona ákveðinn glugga til þess að safna orku til að vera þeim innan handar þegar við kæmum heim. Um morguninn var frændi Tinnu jarðaður og eftir hádegi var komið að Tinnu.“

Boðskapur Tinnu var í stuttu máli sá að það væri alls ekki í lagi að dreifa myndum sem þessum, því það væri manneskja með tilfinningar á bakvið hverja mynd. 

„Tinna gat ekki sagt að hún hafi verið fyrir ofbeldi, hún var ekki alveg komin á þann stað. Hún orðaði það að hún hafi orðið fyrir misnotkun. Það er svona pínu aumingjalegra orð, ofbeldi er sterkara. Þetta er ekkert annað en ofbeldi og ég hef alveg trú á því að hún hefði komist á þann stað, bara ef hún hefði bara fengið aðeins meiri tíma.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.