Innlent

Sá bíl keyra yfir mink á Langholtsveginum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér sést minkurinn sem varð fyrir bíl í gærkvöldi.
Hér sést minkurinn sem varð fyrir bíl í gærkvöldi. Mynd/Benjamín
Benjamín Sigursteinsson og ellefu ára dóttir hans urðu vitni að óvenjulegum atburði í gær, þegar þau sáu mink verða fyrir bíl á Langholtsveginum í gær.

„Reyndar sá dóttir mín þetta bara. Ég leit örsnöggt undan og þá tilkynnti hún mér að hún hefði séð minkinn verða fyrir bílnum. Ég fussaði og hélt fyrst að þetta væri köttur eða rotta, ég trúði ekki að þetta gæti verið minkur. Við fórum út og kíktum á hann og þá kom í ljós að dóttir mín hafði rétt fyrir sér. Þetta var steindauður minkur.“ útskýrir Benjamín. En atvikið átti sér stað nálægt Langholtskirkju á móts við húsnæði verslunarinnar Veiðiflugur og Fóstbræðraheimilisins.

Hér má sjá aðra mynd af minknum.Mynd/Benjamín
Benjamín tók meðfylgjandi mynd en setti síðan minkinn í poka. „Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að gera við hræið. Ég er með það hérna og hugsa að ég setji það bara í ruslið. Ég tók minkinn upp með skóflu, ég vildi ekki snerta hann,“ segir hann. Hann segist ekki hafa áður séð mink á þessum slóðum. „Við höfum aldrei séð minka hér áður en mér skilst að þeir fyrirfinnist í Laugardalnum.“

Ekki er algengt að sjá mink inni í borginni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Benjamín hefur komist í návígi við villta skepnu innan borgarmarka. „Nei, ég sá einu sinni þvottabjörn í New York. Hann var alveg trítilóður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×