Innlent

Reyna aftur að lögleiða fjárhættuspil

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Tillaga Willums byggir á skýrslu sem unnin var fyrir áhugamenn um uppbyggingu spilahalla hér á landi.
Tillaga Willums byggir á skýrslu sem unnin var fyrir áhugamenn um uppbyggingu spilahalla hér á landi. Vísir/getty/Daníel
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur nú í annað sinn lagt fram frumvarp á þingi sem heimilar fjárhættuspil. Frumvarpið fékk ekki efnislega meðferð þegar það var lagt fram síðasta vetur og er því nú endurflutt óbreytt.

Aðeins eitt leyfi í boði

Verði frumvarpið samþykkt sem lög verður ráðherra aðeins heimilt að veita eitt rekstrarleyfi. Rökin fyrir því má finna í greinargerð frumvarpsins en þar segir meðal annars að umfang eftirlits með spilahöll, sem jafnan eru kölluð spilavíti, sé töluvert og að rétt sé að fara hægt í sakirnar og auðvelda ráðherra að fullnægja eftirlitshlutverki sínu með því að afmarka fjölda spilahalla.

Byggt á skýrslu áhugamanna

DV greindi frá því í apríl síðastliðnum að frumvarpið sem Willum lagði fram þá, sem er lagt fram núna í óbreyttri mynd, byggi á skýrslu sem lögmaðurinn Lúðvík Bergvinsson vann fyrir bræðurna Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni. Þeir hafa lengi verið talsmenn lögleiðingar fjárhættuspila.


Þingmenn úr þremur flokkum

Frumvarpinu var dreift í dag og eru sömu þrettán flutningsmenn að því og síðasta vetur. Flutningsmenn koma úr þremur flokkum; Framsókn, Sjálfstæðisflokki og Bjartri Framtíð. 

Flutningsmenn ásamt Willum eru Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Haraldur Einarsson, Páll Jóhann Pálsson, Ásmundur Einar Daðason, Brynjar Níelsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Steingrímsson, Páll Valur Björnsson og Björt Ólafsdóttir.


Tengdar fréttir

Fjárhættuspil lögleitt - Perlan að spilahöll

Lög um fjárhættuspil voru samþykkt á Alþingi í dag með naumum meirihluta. Stjórnarandstaðan gagnrýnir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og flýtimeðferð málsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.