Innlent

Flugdólgurinn sleppur með skrekkinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. Vísir/Anton
Íslenskur karlmaður sem sýndi ógnandi tilburði í flugi Icelandair frá Halifax til Keflavíkur miðvikudaginn 17. september verður ekki kærður. Maðurinn var handtekinn við komuna til Íslands en hann var ofurölvi.

„Við skoðum hvert svona tilfelli fyrir sig. Í þessu tilfelli hefur það verið skoðað. Niðurstaðan er sú að það verður ekki lögð fram kæra,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Aðspurður hvort hegðun mannsins gefi tilefni til þess að takmarka möguleika hans á að fljúga með Icelandair segir Guðjón að farið verði yfir það með manninum.

Maðurinn hóf strax í upphafi ferðar að sýna bæði áhöfn og farþegum ógnandi tilburði, var með mikil ólæti og átti áhöfnin í fullu fangi með að róa manninn niður, en ferðin tekur tæpar fimm klukkustundir. Er þetta í annað skipti á tuttugu mánuðum sem farþegi Icelandair er handtekinn. Frægt er þegar kefla þurfti farþega á leið til Bandaríkjanna í janúar 2013 og líma við sæti hans.

Í báðum tilvikum höfðu mennirnir fengið sér í aðra tána og vel það. Aðspurður hvort umrædd dæmi veki Icelandair til umhugsunar um áfengissölu í flugvélum sínum segir Guðjón svo ekki vera.

„Nei, heilt yfir þá er þetta auðvitað allt saman samkvæmt venju og vandræðalaust. Þetta gefur ekki tilefni til neins slíks. Það koma auðvitað alltaf fyrir einhver tilvik þar sem hlutir fara úr böndum. En það geta líka alls konar aðrir persónulegir hlutir verið orsökin en áfengi.“


Tengdar fréttir

Flugdólgurinn íslenskur

Maðurinn sem handtekinn var í fyrradag fyrir að sýna ógnandi tilburði í flugi Icelandair frá Halifax til Keflavíkur er Íslendingur.

Flugdólgur handtekinn á Keflavíkurvelli

Óskað var aðstoðar lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni við að fjarlægja drukkinn og ógnandi farþega sem var að koma með flugi frá Halifax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×